föstudagur, 25. júlí 2003

Um síðustu helgi fór ég með kærustunni minni í útilegu á Þingvelli og dvaldi þar í tjaldi í tvær nætur en síðan var farið í sumarhús í eina nótt áður en haldið var á nýjan leik til höfuðborgarinnar. Þetta var æðisleg upplifun að fara í útilegu en ég hafði ekki farið í tjaldútilegu síðan ég fór á Þjóðhátíð 1994, það kom mér skemmtilega á óvart hvað þessi útilegubransi er skemmtilegur. Við tjölduðum úi í móa, fjarri öllu fjölskyldufólki og fullum unglingum, og nutum svo sannarlega íslenskrar náttúru. Veðrið á Þingvöllum var stórkostlegt og dundað sér við Frisbíástundun á sundskýlunni á milli þess sem var borðað og drukkið dýrindis mat og veigar. Þetta var svona "gera nákvæmlega ekkert" ferð og líkaði mér það ótrúlega vel. Á kvöldin var síðan drukkið rauðvín, kjaftað og stunduð drykkjuútgáfa af hinum geysivinsæla leik frisbí. Eftir að verið í tvær nætur á Þingvöllum var keyrt upp í Svínadal, þar sem étnar voru vöfflur, gengið var á fjallið Kamb, drukkið var rauðvín, étinn dýrindis grillmatur og spilað fram á rauða nótt. Að lokum var sofið út, gengið frá og haldið í bæinn eftir velheppnaða ferð úti í íslenska náttúru.

Íslensk náttúra hefur upp á svo margt að bjóða, landið er stórt og því eru möguleikarnir óþrjótandi. Það er svo mikil upplifun að fara út í náttúruna og gera ekki neitt. Að gera ekki neitt er að liggja og hlusta á hljóð náttúrunnar og upplifa þetta frelsi sem felst í því að komast burt úr höfuðborginni, komast burt frá öllum áhyggjum, stressi og hversdagslegum venjum sínum. Þá verður þetta aðeins spurning um að vera, gera ekki neitt og vera algjörlega frjáls í svolítinn tíma.

Engin ummæli: