föstudagur, 25. júlí 2003

Ég fékk stórkostlegar fréttir á þriðjudagsmorguninn þegar ég mætti til vinnu minnar. Fréttirnar voru þær að ég hafði komist inn í mastersnám við Bocconi-University í Mílanó á Ítalíu. Nú hef ég einn mánuð til að ákveða mig hvort ég taki þessu boði um skólavist og fari af landi brott í janúar næstkomandi. Þetta er of spennandi til þess að hægt sé að segja nei, þar af leiðandi eru 99% líkur á að ég segi já. Bocconi-University er virtasti viðskiptaháskóli á Ítalíu og er til dæmis MBA nám skólans talið eitt af 10 bestu í Evrópu, samkvæmt Financial Times og því er um frábært tækifæri að ræða. Vefsíða skólans er: www.uni-bocconi.it fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér þennan skóla eitthvað frekar.

Ég hef verið þarna tvívegis áður og því nokkuð augljóst að mér líkar vel við land og þjóð. Ég hlakka því mikið til og er mjög spenntur yfir þessu öllu saman. Þegar ég hef ákveðið mig endanlega verður farið af stað að finna íbúð og að sjálfsögðu vespu til þess að komast á milli staða. Eftir áramót verður því mikið um kaffi, rauðvín og pizzur í mínu lífi.

Engin ummæli: