mánudagur, 18. ágúst 2003

Ég er kominn heim úr landi ljóshærðra kvenna, borðtennisspilara og ABBA-poppara. Kominn heim frá landinu þar sem er töff að ganga um í Björn Borg nærbuxum, í ABBA-outfittinu með Patrick Sjöberg klippinguna. Fyrir þá sem ekki vita var Patrick Sjöberg hástökkvari og einn af þeim fyrstu til þess að koma sítt að aftan hárgreiðslunni til vegs og virðingar..

Í þessari ferð sá ég þrennt.......ég sá hótelið, samvaxna verslunarmiðstöð og eitt stykki knattspyrnuleikvang. Þetta var sem sagt frekar heiladauð knattspyrnuferð, þar sem ekki var gert annað en að spila knattspyrnu.......en samt gaman.

Leikvangurinn sem við spiluðum á tekur 37.000 manns í sæti, jafnstór og Highbury, og var í alla staði mjög glæsilegur. Það mættu rúmlega 7.500 manns á leikinn og virkaði leikvangurinn nánast tómur. En aftur á móti voru þetta örugglega bestu áhorfendur sem maður hefur upplifað og hávaðinn á leikvanginum rosalegur, hinn frægi stuðningsmannahópur AIK, sem heitir Svarti herinn, var hreint út sagt stórkostlegur.

Það er á svona stundum eins og þessum sem maður fær bakþanka um að taka sér a.m.k. eitt ár frá boltanum og fara út í framhaldsnám. En það stóð ekki lengi því á laugardaginn fór maður á æfingu á Fylkisvellinum í grenjandi rigningu og hugsaði um það allan tímann hvað það yrði æðislegt að komast í sturtu. En þegar maður hugsar um fimm mánaða undirbúningstímabil með tilheyrandi hlaupum og lyftingum annars vegar og rauðvínsdrykkju og lærdóm í Mílanó hins vegar ..........þá er alveg á hreinu hvað ég tek fram yfir. Þar sem þetta verður mitt síðasta keppnistímabil í bili þá er vonandi að það endi vel og maður getur lagt skóna á hilluna sáttur með ferilinn. Það er skrýtið að vera á þeim buxunum að vera kannski að hætta þegar maður er að keppa á móti markvörðum eins og Birki Kristins, sem er 38 ára og enn á fullu. Til að ná hans aldri í boltanum ætti ég 10 góð ár eftir.....það sé ég samt ekki alveg fyrir.

Nú eru aðeins sex leikir eftir af keppnistímabilinu en síðasti leikurinn er þann 13. september. Þá lýkur löngu og ströngu keppnistímabili. Þá mun maður hella sér út í drykkju, ofát og óreglu. Sem sagt að gera alla þá hluti sem maður hefur farið á mis við það sem af er góðu ári. Sem sagt út árið ætla ég að gera alla þá hluti sem ég hef aðeins hugsað um hingað til.......

.........Kjartan ætlar að vera FÉLAGSLYNDUR.

Engin ummæli: