Ég er brjálaður, þessi forræðishyggja hér á landi er óþolandi. Nú á að fara skikka veitingamenn til þess að hafa alla veitinga- og skemmtistaði, bari og kaffihús algjörlega reyklaus. Það á ekki að líða það að einhver stjórnvöld ákveði eitthvað svona úr sínum himinnháa fílabeinsturni. Það segja margir að foræðishyggja sé í lagi þegar öryggi annarra er í húfi, sem er réttilega í þessu máli. En það er enginn að neyða reyklaust fólk inn á þá staði sem vilja leyfa reykingar. Ef fólk vill ekki fara á staði sem leyfa reykingar þá fer það fólk einfaldlega eitthvert annað.
Ég tel okkur búa í þjóðfélagi þar sem ríkir frjáls samkeppni þar sem þeir hæfustu lifa af á markaðstorgi viðskiptanna. Stjórnvöld hafa ekki verið að skipta sér of mikið af markaðnum heldur leyft hinni ósýnilegu hönd að leiða markaðinn í hina ákjósanlegustu jafnvægisstöðu. Afhverju er ekki hægt að leyfa framboði og eftirspurn að finna þá jafnvægisstöðu á milli staða þar sem reykingar eru leyfðar og þar sem reykingar eru bannaðar? Ef það séu svona mikill meirihluti fólks sem hlynntur er reykingabanni þá hlýtur að vera markaður fyrir miklu fleiri kaffihús sem vilja banna reykingar af sjálfsdáðum, ef það telur sig best borgið sínum hagsmunum. Það eru nokkur dæmi um þetta ...t.d. hafa Kaffitár og Te & Kaffi verið reyklaus kaffihús frá upphafi og gengið mjög vel. Það væri hugmynd að styrkja þá staði sem vilja banna reykingar alfarið fyrstu mánuðina eftir að þeir banna reykingar, til að koma til móts við það tekjutap á meðan kúnnhópurinn breytist. Það vill örugglega oft gerast að kúnnahópurinn breytist fyrstu mánuðina eftir að reykingar eru bannaðar, reykingarmennirnir fara eitthvert annað og aðrir koma í staðinn. Þetta myndi gera það að verkum að staðirnir hefðu ákveðinn hvata til þess að banna reykingar en aftur á móti væri engin að skipa einum eða neinum til þess banna þær. Ég er viss um að margir veitingamenn hafa velt því fyrir sér að banna reykingar en aldrei látið verða af því, þar sem þeir eru hræddir við að missa hluta af kúnnahópnum sínum. En það er alger fásinna að ætla að banna veitingamönnum alfarið að leyfa reykingar....slíkt er bara forræðishyggja.
Ég viðurkenni vel að ríki og sveitarfélög bera ýmsan kostnað af völdum reykingamanna en hafa að sjálfsögðu tekjur líka í formi álaga á innflutning á tóbaki. Ég ætla ekki að fara að slá fram tölum um hvað kostnaður ríkis og sveitarfélaga sé mikill umfram tekjur vegna reykningamanna hér, enda hef ég þær ekki fyrir framan mig. En ef við ætlum að fara að tala um kostnað ríkis og sveitarfélaga þá er hægt að minna á nokkur atriði sem hægt væri að banna til að spara pening í þjóðfélaginu. Það væri hægt að banna sælgæti, gosdrykki og aðra óholla matvöru en til þessara vöruflokka er hægt að rekja mikinn kostnað í þjóðfélaginu, t.d vegna tannviðgerða, sykursýkis, fitusogsaðgerða, sjúkdóma tengdum hjarta og æðakerfis auk andlegrar vandamála hjá fólki sem á við offituvandamál að stríða. Það væri hægt að banna að fólki að ferðast um hálendi Íslands nema í fylgd með viðurkenndum leiðsögumönnum, viðurkenndum af stjórnvöldum, þar sem mikill kostnaður fellur til vegna leitar, flutnings og sjúkrakostnaðar ferðamanna sem leggja leið sína inn á hálendi landsins. Við gætum bannað hreyfingarleysi þar sem það hefur mikil áhrif á heilsu fólks og vegna þess fellur nokkur kostnaður vegna sjúkdóma og vanlíðan sem hreyfingarleysið veldur. Þessi dæmi mín hljóma kannski mjög fáránlega en það gerir algert reykingabann á öllum veitinga- og skemmtistöðum, börum og kaffihúsum einnig.
Að sjálfsögðu vonar maður að í framtíðinni verði Ísland reyklaust og hlutfall krabbameins og annarra sjúkdóma reykingum tengdum lækki mjög. En það er ekki rétta aðferðin að koma með eitthvað algert bann við reykingum alltaf og alls staðar. Ef það sé markaður fyrir fleiri reyklausa staði þá get ég fullvissað ykkur um það að þeir munu spretta upp á næstu misserum án þess að algert bann verði ákveðið af heilbrigðisráðherra. Þarna er kannski kjörin viðskiptahugmynd á ferðinni. Það er mun heillavænlegra að styrkja þá staði sem vilja verða reyklausir en leyfa þeim stöðum sem vilja leyfa reykingar að vera gera það áfram.
Ef þið eruð á öndveðri skoðun við mig í þessu máli þá endilega skrifið þið í gestabókina hjá mér og látið mig vita hvaða rök styðja við bakið á þessum áætlunum yfirvalda. Svona til að hafa það á hreinu þá hef ég verið hættur að reykja síðan í mars og hef ekki í hyggju að taka þann sið upp aftur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli