Sigurinn í gær var sætur, en í hreinskilni sagt þá hefði sigurinn getað lent hvorum megin sem var. En það var svo sannarlega gott að þessi sigur lenti okkar megin í gær, því þetta voru mikilvæg þrjú stig. En þetta var ekkert rosalega góður leikur hjá okkur, við vorum ekki skapa okkur nógu mikið af opnum færum og vantaði eitthvað upp á það að við værum að spila eins og við getum best. Mörkin sem við skoruðum voru stórglæsileg en þau voru algjör einstaklingsframtök hjá tveimur mönnum. En það alltaf gott að vinna leiki þegar við erum ekki alveg að sýna okkar besta, þá vitum við að við getum betur og eigum eitthvað inni.
Nú eru aðeins sjö leikir eftir af keppnistímabilinu, fimm í deild og tveir í Evrópukeppni félagsliða. Þetta er tímabil er búið að vera mjög langt, margir leikir og mikið fjör. Frá áramótum hef ég samtals spilað 29 leiki og finnst mér það eiginlega of mikið, áður en keppnistímabilið hefst er maður búinn að spila einhverja 18 leiki á undirbúningstímabilinu. En það var byrjað að spila nánast vikulega frá byrjun janúar og er því keppnistímabil orðið næstum því níu mánuðir en þar af er einhverskonar undirbúningskeppnistímabil fjórir mánuðir. Í dag hefja öll lið æfingar í byrjun nóvember þannig að hvíld leikmanna frá knattspyrnu er einungis rúmur einn mánuður. Í hugum knattspyrnumanna skipta Reykjavíkurmótið og Deildarbikarkeppnin nánast engu máli þó alltaf sé gaman að vinna mót. Það væri miklu heillavænlegra að leggja niður Reykjavíkurmótið og hefja deildarbikarkeppnina í byrjun mars. Þá myndi undirbúningstímabilið hefjast í byrjun desember, menn hefðu þrjá mánuði til að komast í gott líkamlegt form og síðan myndi keppnistímabilið hefjast formlega með trukki í byrjun mars. Það er ekki eðlilegt að leikmenn séu nánast búnir að spila heilt keppnistímabil áður en alvöru keppnistímabilið hefst.
En það verður hvorki undirbúningstímabil né keppnistímabil hjá mér á næsta ári.....guði sé lof. Ég ætla mér að verða svona klassísk knattspyrnubulla, sem horfir einungis á fótbolta en spilar hann ekki. Kíki einungis á pöbbinn til þess að fá mér bjór, rífa kjaft út í dómarann og láta alla vita að þessir markmenn geti ekki neitt. Þið kannist við gamla fótboltamenn sem tala um hvað allir voru góðir og hvað knattspyrnan var góð sem spiluð var á þeim tíma. Ég ætla að byrja strax á þessu, daginn eftir síðasta leik í haust. Ég ætla að tala um hvað skotin hefðu verið miklu fastari í gamla daga, hvað senterarnir hafi verið góðir og þar fram eftir götunum. Þannig að eftir tuttugu ár verða allir farnir að trúa því að ég hafi stökkið hæð mína í fullum herklæðum og það hafi ekki verið hægt að skora hjá mér nema að klína boltanum í vinkilinn af þriggja metra færi....í fjórðu tilraun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli