miðvikudagur, 20. ágúst 2003

Að tala við aðra manneskju um þriðju manneskjuna kallast baktal og er stundað af íslendingum í gríð og erg. Baktal getur verið af hinu góða ef það er hrós um þriðju manneskjuna.....en slíkt fellur almennt sjaldnast undir baktal. Baktal er þegar talað er illa um þriðju manneskjuna og að sjálfsögðu án þess að þriðja manneskjan heyri.......ef hún heyrir um baktalið þá heyrir hún um það frá fjórðu manneskjunni eða manneskjunni sem var heyrandinn að baktalinu.

Ég reyni meðvitað að forðast baktal eins og heitan eldinn en stend mig samt að því endrum og eins. Spurningin er sú ........hvað fær maður út úr því að stunda þetta fyrirbæri og af hverju stundar maður þessa iðju? Er þetta vegna þess að maður er uppiskroppa um umræðuefni og eina sem manni dettur í hug er eitthvað slæmt um annað fólk, er þetta spurning um illkvittni, vondar hugsanir og hreinan ásetning, er þetta spurning um menningu íslensku þjóðarinnar eða er þetta eitthvað sem Kári Stefáns gæti fundið út með genarannsóknum. Ein skýringin getur legið í óöryggi þeirrar persónu sem stendur fyrir baktalinu, þörf fyrir því að láta sjálfan sig líta betur út eða hefur einhvern veikan blett sem viðkomandi er að reyna koma athyglinni frá og fela. Það er erfitt gera sér grein fyrir ástæðu alls þessa baktal sem margt fólk virkilega þrífst á.

Þegar ég stend mig að því að vera tala illa um náungann þá líður mér sjálfum illa, ég veit ég var að gera rangt og sé eftir öllu saman. Græðum við eitthvað á þessu baktali og ef svo er ekki .......af hverju í fjandanum erum við þá að stunda það. Maður hefur lent í því að vera tala við tvær manneskjur, síðan fer önnur þeirra út úr herberginu og þá byrjar hin að tala illa um þann sem fór fram. Þetta er nú náttúrulega ekki heilbrigt!!!

Er það ekki ágætt að venja sig á það að segja ekki neitt bak við einhvern sem maður væri ekki tilbúinn til að segja við hann í eigin persónu. Margir þyrftu að breyta venjum sínum mikið, aðrir minna og sumir jafnvel ekki neitt. Ég þekki eina manneskju sem ég hef aldrei heyrt segja neitt slæmt um aðra manneskju..... hún er lífsglöð, jákvæð, hress og örugglega virkilega sátt við sjálfan sig að þessu leyti.

Hér eftir mun enginn heyra mig tala illa um annað fólk....ALDREI.

Engin ummæli: