Þó tilhlökkunin sé mikil að fara til Mílanó og mér líki mjög vel við borgina þá eru atriði sem ég sakna ekkert sérstaklega, það er þannig nánast alltaf. Maður verður bara að taka kostina og bera saman við gallana og síðan að vega það og meta hvað manni finnst. Það er nú samt oftast þannig að þegar maður líka við eitthvað þá kemur maður ekki auga á gallana. Maður er bara ánægður með lífið og tilveruna og finnst allt vera fullkomið en þegar betur er að gáð þá getur maður alltaf fundið eitthvað sem mætti vera betra eða mætti vera öðruvísi ...........þó maður eigi að sjálfsögðu bara að sleppa því.
Hér átti að koma topp 15 listi yfir atriði sem ég sakna ekkert sérstaklega frá Mílanó en ég fann því miður bara 6 atriði:
1. Að lenda í röð á fjórum stöðum, bíða í samtals 8 klst., fá svo ekki afgreiðslu eftir allt saman og vera aðeins að biðja um eitt eyðublað. Svona geta nú hlutirnir verið í Mílanó og verður maður bara að venjast þessu.
2. Að komast ekki áfram í miðborginni vegna ferðamanna sem hafa það eina markmið að gefa dúfunum að éta og taka myndir af dómkirkjunni.
3. Að fara út í búð og biðja afgreiðslukonuna um plástur, hún skilur ekki framburðinn hjá manni og maður fær í staðinn bleika sundhettu og svitabönd í stíl. Það er bara stundum sem maður er ekki nógu sleipur í ítölskunni og það gerist ALLTOF oft.
4. Að vera 15-20 sentímetrum hærri en næststærsti maðurinn í Mílanó, svolítið ýkt en í áttina.
5. Að Mílanó skuli vera frekar grá, einsleit og ekkert mjög falleg, það er sem sagt ekki hægt að líkja henni við Flórens eða Róm.
6. Að það geti verið þoka í Mílanó í nokkuð marga daga á ári.
Þessi ofantöldu atriði eru léttvæg og skipta nánast engu máli. Það er sem sagt ekkert svakalega mikið sem ég set út á þessa borg enda er ég fara þangað aftur og enn á ný.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli