fimmtudagur, 18. september 2003

Hið Kúrbíska Samfélag
Þessi síða er fyrsta skrefið í þá átt að mynda kúrbískt samfélag og gera það sem Kúrbíturinn stendur fyrir að ákveðnum lífstíl. Í þessu samfélagi munu allir búa hamingjusamir, í sátt og samlyndi.....bæði við menn og dýr. Þar mun ástin, vonin, kærleikurinn og væntumþykjan ráða ríkjum og hamingja öllum til handa verða óumflýjanleg. Hér er ekki verið að tala um eitthvert útópíuþjóðfélag heldur um það framtíðarþjóðfélag sem mannkynið hefur beðið eftir og þráð í aldanna rás. Það mun spretta fram fullskapað og fullkomið í allri sinni dýrð í allra nánustu framtíð.

Þetta samfélag mun fá nafnið Hið Kúrbíska Samfélag og að sjálfsögðu mun einkennistákn þess verða hinn geysifallegi kúrbítur (þegar kúrbítur er skrifaður með litlum staf þá er verið að meina grænmetistegundina). Fáni samfélagsins verður grænn með gulum hring í miðju og inn í þessum hring verður mynd af einkennistákni samfélagsins, kúrbítnum. Til að vera gildur, góður og gegn samfélagsþegn í Hinu Kúrbíska Samfélagi þarf viðkomandi að taka þátt í margvíslegum rannsóknum, taka fjöldan allan af prófum og margvísleg sálfræði-, siðfræði- og félagslegar kannanir á persónuleika umsækjenda áður en að formlegri inngöngu hans geti orðið.

Hægt er að sækja um að komast í ofangreindar rannsóknir, próf og kannanir sem þarf til að verða gildur, góður og gegn þegn í Hinu Kúrbíska Samfélagi með því að kommenta á þessa grein. Þar á að koma fram ástæður fyrir því að það ætti að taka þig sem fullgildan þegn Hins Kúrbíska Samfélags. Ráðlegt er að gera sér ekki of miklar vonir um inngöngu en ég hvet alla til að láta á það reyna.

Með von um hamingju öllum til handa

Kúrbíturinn.............lýðræðislega kjörinn forseti Hins Kúrbíska Samfélags til eilífðar.

Engin ummæli: