Kúrbíturinn er fædd poppstjarna
Kúrbískan er ákveðinn lífstíll, menning og þar ríkja ákveðin viðmið og gildi. Kúrbíturinn braut mörg af þessum viðmiðum sínum í gærkvöldi og einnig nokkur gildi, sem hann sjálfur hefur sett. Kúrbíturinn settist nefnilega fyrir framan sjónvarpstækið í gærkvöldi og horfði á fyrsta þáttinn af Stjörnuleit, sem er hin íslenska útgáfa af American Idol. Kúrbíturinn hefur það sér til málsbóta að upprunalega kom þessi þáttur frá Bretlandi, var síðan heimfærður yfir á Bandaríkin og nú yfir á Ísland.
Það var eitt sem flaug í gegnum huga Kúrbítsins ”Er Kúrbíturinn ekki fædd poppstjarna???. Er ekki tónlistarheimurinn búinn að vera að bíða eftir Kúrbítnum í bráðum 28 ár? Hér á eftir koma topp 10 atriði hvers vegna Kúrbíturinn er fædd poppstjarna.
1. Hann hefur sannarlega rétta útlitið, er svona sambland af Nick Cave, Björgvini Halldórs, Ragnhildi Gísla, Diddú og Bubba Morthens.
2. Það heyrir það hver einn og einasti vitiborni maður að Kúrbíturinn hefur stórkostlega rödd, getur sungið allt frá silkimjúkum ballöðum upp í þungarokk af þyngstu og allt þar á milli. Hægt er að líkja honum bæði við Kristján Jóhannsson og Pál Rósinkrans, allt eftir því í hvernig skapi Kúrbíturinn er.
3. Kúrbíturinn kann að sjálfsögðu að dansa, það eru til vitni um það á öllum helstu skemmtistöðum landsins. Þó hann hafi aldrei farið í dansskóla þá er þetta meðfætt eins og annað.
4. Hann hefur útgeislunina, hann getur gjörsamlega heillað alla í kringum sig án þess að gera nokkurn skapaðan hlut…..þetta kemur allt innan frá.
5. Hann getur höndlað frægðina á einstakan hátt, hann yrði svona sambland af Madonnu, Fjölni Þorgeirs og Birgittu.
6. Hann hefur rétta fatasmekkinn, kann að klæða sig eins og poppstjarna. Hann fylgir ekki tískunni heldur leiðir hann tískuna.
7. Myndavélarnar gjörsamlega elska Kúrbítinn og elta hann á röndum hvert sem hann fer.
8. Kúrbíturinn hefur ótrúlegt tóneyra, ef hann heyrir lítið stef þá kann hann lagið.
9. Kúrbíturinn kann að lesa nótur betur Moggann, elskar nóturnar út af lífinu og fer frekar með nótnabók inn á klósettið en Hagkaupsbæklinginn.
10. Kúrbíturinn getur spila á öll hugsanleg hljóðfæri, hvort sem það er fiðla, horn, harmonikka, gítar eða Harpa.
Eftir að maður hefur lesið þennan lista hér fyrir ofan þá sér maður að Kúrbíturinn er fædd poppstjarna. Hann er þessi poppstjarna sem heimurinn hefur beðið eftir í áratugi, allt frá því að Elvis Presley kom fram á sjónarsviðið.
Þetta er einungis spurning um hvort þessi Stjörnuleit sé ekki bara of lítil keppni fyrir poppstjörnu á borð við Kúrbítinn?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli