mánudagur, 8. desember 2003

Í hverju er konan
Undur og stórmerki hafa átt sér stað í dag........konan er ekki klædd í svartan ermalausan bol. Hún hefur sýnt alveg ótrúlega hugdirfsku, frumlegheit og mikla áhættu með því að mæta til vinnu í gráum ermalausum bol og bláum gallabuxum.Þetta er kannski ekki stórt skref fyrir mannkynið en stórt fyrir þessa konu......það er bara stundum öðruvísi farið. Kúrbíturinn óskar konunni til hamingju með þennan glæsilega árangur.

Libertas Brera F.C........í frjálsu falli niður töfluna
Libertas Brera náði einungis jafntefli gegn N.C.P. Football Club, 1-1 á heimavelli og féll liðið niður i fimmta sæti deildarinnar fyrir vikið. Leikmenn Libertas Brera F.C. spiluðu illa í þessum leik, sókn liðsins hugmyndasnauð og vörnin hriplek. Það má með sanni segja að Libertas Brera F.C. hafi verið heppið að sleppa með jafntefli frá þessum leik. Libertas Brera F.C. leikur næst gegn Assago og er mikil pressa á leikmönnum Libertas Brera F.C. að innbyrða sigur úr þeim.

La Cantina delle Zucchine
Nú fer að líða að því að jólauppskera Kúrbítsins verði sett á flöskur og er Kúrbíturinn ólýsanlega spenntur. Samkvæmt reglum víngerðarmanna á vínið að geymast á flöskum í heilan mánuð en það hefur aldrei gerst hjá Kúrbítnum. Venjulega er síðasta flaskan búin þegar þessum geymslumánuði er lokið, því Kúrbíturinn er óþolinmóður og vill fá sitt rauðvín sem allra fyrst. Það mun ekki verða nein breyting á þessari óþolinmæði hjá Kúrbítnum í sambandi við jólauppskeruna, Kúrbíturinn fer til Ítalíu eftir innan við mánuð og jólavínið skal klárast fyrir brottför. Í ár hefur Kúrbíturinn verið að stelast til að fá sér glas og glas áður vínið hefur verið sett á flöskur......það er því alveg spurning hvort jólavínið komist á flöskur þetta árið. En Kúrbíturinn hefur ákveðið að taka sér taki, láta af þessu bráðlæti og bíða rólegur þangað til vínið verður sett á flöskur á miðvikudaginn. Kúrbíturinn telur að þetta verði besta jólavínið frá upphafi og þessum árgangi verði minnst sem tímamótavíni í sögu alþjóðlegrar vínræktar.

Ísland-Ítalía......yrði landsleikur aldarinnar
Eggert Magnússon, formaður Knattspyrnusambands Íslands, ræddi við Giovanni Trapattoni, landsliðsþjálfara Ítalíu, í Frankfurt í Þýskalandi á fimmtudagskvöldið og bauð honum að koma með landslið sitt til Íslands næsta sumar. „Þegar ég ræddi við Trappattoni benti ég honum á að það væri tilvalið tækifæri að leika æfingaleik við Ísland fyrir Evrópukeppnina sem verður í Portúgal í júní. Sagði honum að við lékjum svipaða knattspyrnu og Svíar og Danir, sem eru með Ítölum í riðli. Trappattoni tók ekki illa í boðið og fannst það áhugavert. Við munum hafa samband við ítalska knattspyrnusambandið á næstu dögum til að ítreka boðið. Það væri stórkostlegt að fá landslið Ítalíu í heimsókn til Íslands,“ sagði Eggert við Morgunblaðið. Hægt er að smella hér til að sjá fréttina á mbl.is.

Engin ummæli: