Kúrbíturinn.....hamingjusamur í Mílanó
Kúrbíturinn er loksins kominn aftur......ánægður, hamingjusamur og glaður í hjarta sínu. Til þessa hefur förin til fyrirheitna landsins gengið vonum framar, allt hefur gengið að óskum og Kúrbítsparinu líður alveg afskaplega vel í stórborginni Mílanó. Kúrbíturinn vill koma á framfæri afsökunarbeiðni vegna þess hve jólafrí hans hefur verið langt en lofar hér eftir að uppfæra Hið Kúrbíska Heimsveldi reglulega. Kúrbíturinn vill þakka aðdáendum sínum um allan heim fyrir þolinmæði í sinn garð og alla þá biðlund sem þeir hafa sýnt Kúrbítnum.
Hin fullkomna íbúð
Kúrbíturinn og hans kvinna voru að þessu sinni rosalega heppin í íbúðarmálum, fengu pínulitla íbúð á besta stað og leiguverðið mjög sanngjarnt. Íbúðin er við pínulitla götu sem heitir Via Giancarlo Passeroni 2 og er í hverfi sem er kallað Porta Romana. Gatan er mjög sjarmerandi......beint á móti er lítil grænmetisbúð, í eigu gamals manns, sem heitir Le Mele og þar við hliðina kjöt- og ostakaupmaður með litla búð sem heitir La Macceleria. Í húsinu við hliðina á okkar er mjög gott bakarí, í húsinu hinum megin við íbúðina er bar þar sem fótbolti er sýndur á breiðtjaldi og rétt hjá er “edicola”, sem er blaðsöluturn. Íbúðin er sem sagt í frábæru hverfi og stutt í alla þjónustu, þ.á.m. veitingastaði, bari o.s.frv.
Á fimmtu hæð.......og engin lyfta
Kúrbíturinn og hans kvinna búa í þessari æðislegu íbúð á þessum frábæra stað.....sem er náttúrulega stórkostlegt. Það er einungis einn ókostur við þessa íbúð sem er um leið nokkuð góður kostur......íbúðin er á fimmtu hæð og enginn lyfta. Ókosturinn við þetta er sá að kúrbíturinn og hans kvinna þurfa að ganga klífa nokkuð á annað hundrað tröppur en kosturinn er sá að þetta heldur þeim hjónum í ágætis líkamlegu ásigkomulagi. Kúrbíturinn og hans kvinna eru ekki á einu máli um hvað tröppurnar eru margar.......allt frá 102 tröppum upp í 115 tröppur. Á næstu vikum munu þau hjónin framkvæma vísindalega rannsókn á þessum tröppufjölda og birta niðurstöður hennar hér á Hinu Kúrbíska Heimsveldi.
Bocconi-University
Kúrbíturinn er kominn á fullt í skólann, mikið að gera og býst Kúrbíturinn við mjög annasömu ári. Kúrbíturinn er í skólanum alla virka daga, frá kl. 8.45 til 16.00. Það er því um mikla viðveru að ræða en tímarnir eru flestir mjög skemmtilegir og því ekkert leiðinlegt að vera í skólanum. Í lok janúar mun ítölskunám bætast við, 3svar í viku....klukkutíma í senn. Þá mun kúrbíturinn vera suma daga í skólanum frá kl. 8.45 til kl. 17.00.......rosalega langt. Í þessu námi eru 42 krakkar, 12 strákar og 30 stelpur........þið lásuð sko rétt 30 STELPUR!!!!!!!! Þetta er allt mjög spennandi krakkar, koma frá öllum heimshornum og allir með mismunandi bakgrunn sem gerir þetta mjög spennandi. Kúrbítuinn ætlar að telja upp nokkur lönd: Serbía, Kanada, Nígería, Japan, Austuríki, Kína, Grikkland, Holland, Kólumbía, Brasilía.......mjög skemmtileg flóra. Kúrbíturinn mun segja meira frá náminu síðar.
Genoa......hér komum við
Kúrbíturinn og hans kvinna stefna að því á næstu vikum, jafnvel næstu helgi, að fara í heimsókn til skáldsins í Genoa og hans kvinnu......Steinars Braga Guðmundssonar. Þar er veðrið allt annað og betra, hitastigið nær tveggja stafa tölu og stelpurnar léttklæddari fyrir vikið.........
En nú tekur alvaran við.........
Kúrbíturinn ætlar að láta þetta nægja að sinni og snúa sér að alvarlegri viðfangsefnum.....rauðvínsdrykkju, pizzuáti og jafnvel skella í sig einum Monte Negro á eftir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli