Hugleiðingar Kúrbítsins um landið sitt í fjarska
Kúrbíturinn býr á Ítalíu... nánar tiltekið í Mílanó og líkar honum það vel. Kúrbíturinn er hamingjusamur á Ítalíu, líður afskaplega vel og er ekki á heimleið alveg á næstunni. Ástæðan fyrir því er ekki að honum líki illa við Ísland... því fer fjarri. Kúrbítnum finnst Ísland vera fallegasta land í heimi og finnst þar afskaplega gott að búa. Aftur á móti telur Kúrbíturinn það hverjum manni hollt að búa í útlöndum í ákveðinn tíma, kynnast nýrri menningu, fólki af ólíkum þjóðernum og læra nýtt tungamál. Eitt það mikilvægasta við það að búa í útlöndum, fjarri heimahögum, er að sjá landið sitt úr fjarlægð og koma auga á alla þá sérstöðu sem Ísland hefur upp á að bjóða. Þegar maður skoðar Ísland úr fjarlægð uppgötvar maður svo marga kosti sem þetta land hefur upp á að bjóða sem maður kannski kann ekki að meta þegar maður er heima.
Kúrbíturinn gaf ítölskum vini sínum sem heitir Elio Mariani bók um Ísland í jólagjöf fyrir nokkrum árum og féll sú gjöf svona líka vel í kramið. Hann er búinn að skoða bókina aftur á bak og áfram, kolféll fyrir landinu og vill ólmur komast til Íslands. Hann vill skoða hvern krók og hvern kima á þessu landi og vill alls ekki koma í skemmri tíma en fjórar vikur. Hann segir að það sé svo margt að skoða og margt að sjá. Hann vill m.a. fara og sjá Landmannalaugar, Mývatn, Þingvelli, Gullfoss og Geysi, þræða Vestfirðina, grandskoða Snæfellsnesið, fara í Bláa lónið, kíkja í Þórsmörk, skoða alla fossa landsins, á jeppa um hálendið, fara til Vestmannaeyja, setja í villtan lax og að sjálfsögðu kíkja á ekta íslenskt næturlíf. Kúrbíturinn skammast sín fyrir það að hafa sjálfur ekki séð marga af þessum stöðum með eigin augum... og ekki er maríulaxinn kominn á land enn. Kúrbíturinn hefur, eins og margir aðrir Íslendingar, séð framandi lönd í hillingum og vildi sjá allan heiminn áður en hann legði land undir fót og ferðaðist um sitt eigið land. Hann var því ánægður með áhuga Elio vinar sinns, fann til þjóðarstolts og var ánægður fyrir hönd Íslands. Kúrbíturinn hlakkar til þegar Elio lætur verða af því að koma til Íslands, ætlar að taka sér sumarfrí á sama tíma og ferðast með honum um sína fögru fósturjörð.
Hugsanir Kúrbítsins endurspeglast í eftirfarandi ljóðlínum:
Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir
Ísland í huga þér, hvert sem þú ferð.
Kúrbíturinn mælir með Íslandi, hlakkar til að koma næst til Íslands og upplifa alla þá möguleika sem landið hefur upp á að bjóða.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli