þriðjudagur, 30. mars 2004

Lífið er yndislegt......
Kúrbíturinn er glaður, hamingjusamur og ánægður með lífið og tilveruna. Lífið leikur við Kúrbítinn og einhvern veginn gengur allt upp hjá Kúrbítnum þessa dagana. Kúrbíturinn býr í mjög skemmtilegri borg þar sem í dag var um 25 stiga hiti og glampandi sól, Kúrbíturinn er í frábærum skóla og er í námi sem honum líkar vel, í bekk með mjög áhugaverðu fólki frá öllum heimshornum og síðast en ekki síst nýtur Kúrbíturinn ástar og umhyggju fallegustu kvinnu sem til er í öllum heiminum.

Það er svo sannarlega vor í lofti í Mílanó, tré og runnar að komast í sumarkjólana sína og hækkar hitastigið með hverjum deginum sem líður. Kúrbítnum finnst gaman að ganga um götur Mílanóborgar þessa dagana og fylgjast með því hvað fólkið verður sífellt glaðara, sífellt léttklæddara og einhvern veginn hamingjusamara á svipinn. Gönguleiðir Kúrbítsins eru samt ekki mjög fjölbreyttar... þær felast í göngutúr í skólann á morgnana og aftur heim að kveldi. Kúrbíturinn er farinn að hugsa um að breyta göngu sinni, ganga aðra leið í skólann og athuga hvort hann uppgötvi ekki nýjan vinkil á þessari skemmtilegu borg.

Það er margt spennandi fram undan hjá Kúrbítnum og hlakkar hann til næstu vikna. Um miðjan aprílmánuð munu foreldrar kvinnu Kúrbítsins heiðra Mílanóborg með nærveru sinni, stíga trylltan dans og njóta lífsins til hins ýtrasta. Örlitlu seinna mun Kúrbítsfjölskyldan koma til borgarinnar, heimsækja sinn sárt saknaða Kúrbítsson og sína verðandi tengdakúrbítskvinnudóttur. Þá verður svo sannarlega kátt í höllinni, Kúrbíturinn mun jafnvel fjárfesta í rauðvíni sem kostar meira en 3 evrur og munu þau svo sannarlega halda stórkostlega veislu.

Það er einungis eitt sem skyggir á alla þessa hamingju Kúrbítsins... kvinna Kúrbítsins er á leiðinni til Indlands í 7 mánuði. Kúrbíturinn er í ákveðinni þjálfun hjá kvinnu sinni þessa dagana og heitir námskeiðið... ”Sjálfsbjörgunarnámskeið fyrir Kúrbíta sem munu sakna kvinnu sinnar”. Að loknu þessu 3 vikna námskeiði telur Kúrbíturinn sig vera tilbúinn að gera tilraun til þess að geta verið án kvinnu sinnar með miklum erfiðismunum. Kúrbíturinn getur huggað sig við það að hann mun fara til Indlands og heimsækja kvinnu sína í águst og dvelja hjá henni í heilan mánuð... þá verða svo sannarlega ástar- og fagnaðarfundir.

Engin ummæli: