Það er líf eftir jafntefli...
Vonbrigði Elliða voru mikil þegar Skagamenn náðu að jafna leikinn þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma því Elliði var virkilega farinn að gæla við það að ná þremur stigum í hús úr þessum fyrsta leik íslandsmótsins. Samkvæmt útvarpslýsingunni voru Fylkismenn betri aðillinn fyrri hálfleik en Skagamenn ívið sterkari í þeim síðari...enda með skagarokið og skagarigninguna í bakið. Þegar leikurinn er skoðaður í heild sinni þá voru úrslitin kannski sanngjörn...að minnsta kosti þegar litið er á þá staðreynd að Bjarni markmaður var besti maður vallarins að mati Fréttablaðsins.
Elliði var svo sannarlega sannspár þennan sunnudaginn því hann spáði rétt fyrir um úrslit þessa leiks og hver myndi skora fyrir Fylki...Elliði talaði við Sævar Þór kvöldið fyrir leikinn, tjáði honum spá sína og því hefur Elliði vitni að þessari spá sinni. Elliði hefur hug á því að spá rétt fyrir alla leiki sumarsins og tala við Sævar kvöldið fyrir hvern einasta leik...þá mun Fylkir enda mótið á farsælan hátt og Sævar verða markakóngur mótsins.
Elliði er í skýjunum yfir frammistöðu Bjarna Þórðar Halldórssonar í sínum fyrsta alvöru leik sem leik sem aðalmarkvörður Fylkis. Bjarni greip vel inn í leikinn og varði oft á tíðum frábærlega. Elliði hefur ákveðið að stofna aðdáendaklúbb Bjarna Þórðar hér í Mílanó og er það örugglega í fyrsta sinn sem íslenskur leikmaður á sinn eigin aðdáendaklúbb á Ítalíu nema að Albert Guðmundson heitinn hafi átt einn slíkan hér á árum áður. Aðdáendaklúbburinn mun heita Þórður og munu félagsmenn hittast yfir glasi af rauðvíni einu sinni í viku á hinum geysivinsæla Fresco Bar. Þar verður Bjarni Þórður aðal umræðuefnið, dreift verður barmmerkjum og að sjálfsögðu verður keppni um það hver sé líkastur goðinu. Þeir sem vilja fá inngöngu í klúbbinn eru beðnir um skila inn umsókn sem komment hér fyrir neðan og þess má geta að farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál.
Elliði vill hér með óska Bjarna til hamingju með frammistöðuna í fyrsta leiknum, hann stóð sig frábærlega og hefur Elliði trú á því að þetta sé einungis byrjunin á glæsilegu kepppnistímabili. Á undanförnum vikum hefur Elliði farið fögrum orðum um hæfileika Bjarna sem markmanns og vill Elliði koma því fram að Bjarni uppfyllti svo sannarlega allar væntingar Elliða.
Elliði vill hrósa forsvarsmönnum Fylkis fyrir að auglýsa eftir fólki í ákveðna starfshópa og nefndir á vegum Fylkis á heimasíðu félagsins. Þegar Elliði las fyrirsögnina þá hélt hann að einungis væri að auglýsa eftir sjálfboðaliðum til þess að vinna á heimaleikjum o.s.frv. Það var svo sannarlega rangt hjá Elliða því þarna var um að ræða allar þær nefndir sem vinna innan félgsins, t.d. fjáröflunarnefnd, herrakvöldsnefnd og meistarflokksráð. Þetta er frábært hjá Fylki að auglýsa þessar nefndir á heimasíðu félagsins og gefa þar með öllum sem hafa áhuga tækifæri til þess að taka þátt. Sérstaklega er Elliði ánægður með markaðs- og útgáfunefndina sem þarna er auglýst og vonar Elliði eftir að hæft fólk ráðist til þeirra starfa.
Ennfremur vill Elliði hrósa félaginu fyrir mjög svo batnandi heimasíðu, fréttir eru orðnar mjög reglulegar og loksins getur maður virkilega treyst á skjótan fréttaflutning. Elliði vill koma fram með þá hugmynd að þeir sem sjá um heimasíðuna hói saman í nokkra skemtilega penna, fái þá til þess að skrifa pistla sem birtast á heimasíðunni kannski tvisvar í viku. Það eru margir skemmtilegir pennar innan félagsins sem væru örugglega til í að taka þátt, t.d. Andri Snær Magnason, Dagur Eggertsson, Birna Anna Björnsdóttir, Steinar Bragi Guðmundsson o.fl. Elliði telur að þetta gæti verið skemmtilegt, þetta urðu ólíkir pennar sem myndu koma með fjölbreytta vinkla á félagið.
Lifi Fylkir...að eilífu
Engin ummæli:
Skrifa ummæli