miðvikudagur, 19. maí 2004

Það er margt skrýtið í þessum þessum...
Það er margt í þessum heimi sem Kúrbíturinn skilur ekki, enda ekki neinn svakalega gáfaður maður á ferð og því er þetta skilningsleysi Kúrbítsins ekki nein tilviljun. Eitt af þessum atriðum sem Kúrbíturinn skilur ekki eru margir þættir lögfræðinnar. Kúrbíturinn veit að lögfræði gengur mikið út á fordæmi og hvernig löglærðir menn vilja leggja túlkun sína í ákveðnar lagagreinar. Það er svo sem skiljanlegt því erfitt væri að binda hvert smáatriði löggjafarinnar inn í lagasafnið...ef það yrði gert þá væri lagasafn Íslands þykkara en Indverska símaskráin.

En stundum skilur ekki hvernig þessir löglærðu menn geta túlkað sumar greinar íslenskra laga og ná að túlka sumar af þeim á alveg ótrúlegastan hátt. Eitt dæmi um þetta er hvernig skoðanir lögfræðinga landsins eru á 26 gr. Stjórnarskrárinnar. Hér fyrir neðan ber að líta þessa grein í óbreyttri mynd:

Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

Hvernig er hægt að túlka þessa grein á á leið að forsetinn hafi ekki þetta neitunarvald sem í henni kemur fram? Þetta er svo sannarlega Kúrbítnum algjörlega óskiljanlegt en ef að baki liggja sterk rök þess efnis að forsetinn hafi ekki þetta vald...afhverju er þá ekki löngu búið að taka þessa grein út úr Stjórnarskránni því hún er þá tilgangslaus?

Kúrbíturinn biður alla þá löglærðu menn sem inn á Hið Kúrbíska Lýðveldi venja komur sínar að skýra þetta mál fyrir Kúrbítnum í eitt skipti fyrir öll.

Engin ummæli: