föstudagur, 10. september 2004

Indlandsævintýrið...fyrsti dagur
Kúrbíturinn hafði beðið þessarar stundar í margar vikur, iðað í skinninu af spenningi og talið niður dagana. Loksins var stundin runnin upp. Kúrbíturinn lét sér líða vel á Heathrow-flugvelli í London, fékk sér bjór og hugsaði um þá tilfinningu að hitta kvinnu sína í Indlandi eftir 12 klukkustundir...það yrði stórkostlegt.

Þar sem Kúrbíturinn sat var umhverfið honum eðlilegt...bæði fólkið, tungumál þess og litarháttur. Það átti svo sannarlega eftir að breytast því þegar Kúrbíturinn var sestur inn í flugvélina uppgötvaði hann að hann var nánast eini hvíti farþeginn í vélinni. Hitt fólkið var dekkra en hann, talaði annað tungumál, lyktin framandi, fólkið öðruvísi klætt, mennirnir með brenndan kúaskít á enninu og konurnar með fegurðarblett á sama stað. Þetta var skrýtin tilfinning en þessu átti Kúrbíturinn eftir að venjast furðu fljótt. Flugferðin gekk vel, leið hratt og hefur Kúrbíturinn ekki horft jafn mikið á sjónvarp í mörg ár.

Kúrbíturinn hafði búist við að allt tæki langan tíma á flugvellinum en því fór fjarri. Allt gekk snuðrulaust fyrir sig og er hann ekki fjarri því að Íslendingar mættu læra margt af Inverjum í í sambandi við rekstur flugvalla.

Þegar Kúrbíturinn labbaði út flugstöðinni bjóst hann við að sjá kvinnu sína hlaupandi á móti honum, flaðra upp um hann og furða sig á hans miklu náttúrulegu fegurð. Kúrbíturinn leit í allar áttir en kvinnan var svo sannarlega ekki á staðnum. Kúrbíturinn gekk aleinn út úr mestu mannmergðinni, settist niður á gangstéttarbrún og kveikti sér í vindli. Á meðan hann reykti kærkominn vindil þá hringdi hann í kvinnu sinni og kom þá í ljós að bílstjórinn hafði sofið yfir sig...það náttúrulega gat ekki verið að kvinna Kúrbítsins hefði gleymt honum. Það voru 20 mínútur í kvinnu Kúrbítsins og notaði hann tímann til þess að skoða umhverfið sitt og reykja einn vindil til.

Svo kom að hinni langþráðu stund hjá Kúrbítnum þegar kvinnan kom að sækja Kúrbítinn sinn. Það var stórkostleg tilfinning fyrir Kúrbítinn að hitta kvinnu sína á nýjan leik. Honum langaði roslega mikið að kyssa hana í bak og fyrir en kvinnan benti honum á það að það væri ekki vel séð að vera mikið að kyssast á almannafæri...Kúrbíturinn varð því að bíða enn um sinn.

Á leiðinni upp í íbúð kvinnu Kúrbítsins var hann uppnuminn af fegurð kvinnu sinnar, framandi landi og vingjarnlegri þjóð. Kúrbíturinn uppgötvaði um leið að umferðin í þessu landi væri engri lík, átti erfitt með að greina hvort það væri hægri eða vinstri umferð eða hvort það væru yfir höfuð einhverjar reglur við lýði.

Við komuna í íbúð Kúrbítskvinnunnar var sest niður, fengið sér að reykja og kjaftað í nokkurn tíma. Íbúðin á fátt líkt með lúxusíbúðunum sem Íslendingar eru vanir en sannarlega var hún heimilisleg. Kúrbítnum fannst betra að vera að koma frá Mílanó...þægindamunurinn var einhvern veginn minni.

Það var svo sannarlega kominn háttatími fyrir Kúrbítshjónin. Kúrbíturinn var glaður í hjarta sínu yfir því að hafa endurheimt kvinnu sína og hlakkaði til að eyða næstu 3 vikum með henni á Indlandi...hennar heimaslóðum.

Engin ummæli: