föstudagur, 15. október 2004

Indlandsævintýrið...dagur níu
Kúrbítshjónin voru ferðbúin klukkan sex þennan morgun...það gerist sjaldan hjá þeim hjónum og einungis þegar eitthvað mikið stendur til. Tekinn var Rickshaw á lestarstöðina, þar var tekin lest til til smábæjarins Alleype og loks tekinn annar Rickshaw sem kom okkur á þann stað sem við vildum komast til. Þegar við komum á leiðarenda beið eftir okkur skemmtilega samansettur húsbátur og þrír starfsmenn sem yrðu með í för...tveir menn sem myndu koma bátnum áfram og einn kokkur sem vonandi myndi töfra fram einhverjar skemmtilegan Keralamat.

Að lokum rann upp þessi langþráða stund, lagt var af stað og siglt um vötnin í kyrrð og ró. Það voru tveir menn eins og áður sagði sem komu bátnum áfram með löngum prikum en ekki var notast við vélarafl nema í algjörri neyð. Kúrbítshjónin nutu þess í botn að sigla um þessi fallegu vötn í kyrrð og ró. Eftir rúma fimm klukkustundir þá lögðu mennirnir bátnum við bryggju. Nú var komið að dýrindiskræsingum að hætti Keralabúa...suður-indverskur matur að bestu gerð.

Starfsmennirnir voru allir af vilja gerðir til þess að þjóna Kúrbítshjónunum á allan hátt og stundum fór það langt umfram það sem eðlilegt er. Um kvöldið byrjuðu þeir að blaka einhverjum blævæng fyrir framan Kúrbítshjónin og gengu þeir svo langt að klæða Kúrbítinn úr bolnum og blaka blævængnum á Kúrbítinn í gríð og erg. Kúrbítnum fannst þetta eiginlega einum of og langaði mest til að eiga þessa stund einn með sinni heittelskuðu kvvinnu...stundum getur þjonustulund Indverja eiginlega verið of mikil.

Um kvöldið þegar Kúrbítshjónin voru leið í rekkju komu þau auga á óboðin gest í svefnherberginu...þetta var kónguló sem var u.þ.b. 12 cm í þvermál. Á þessari stundu kom í ljós að Kúrbíturinn er svo sannarlega hræddari við kóngulær en kvinnan sín. Ekki náðist að koma kóngulónni fyrir kattarnef og því sváfu Kúrbítshjónin undir moskítóneti kannski ásamt kóngulónni...hver veit.

Svona var nú hinn níundi dagur...

Engin ummæli: