Ó Reykjavík Ó Reykjavík...þú yndislega borg
Kúrbíturinn hefur oft hugsað á þann veg að það sé ekkert hægt að gera í Reykjavík. Það er náttúrulega bara vitleysa því Reykjavík býður upp á óteljandi möguleika. Kúrbíturinn birti fyrir nokkuð mánuðum lista yfir 15 hugmyndir sem svo bættu þegnar Hins Kúrbíska Heimsveldis við 7 hugmyndum, þar var Erlendur Þór Gunnarsson mjög duglegur. Hér á eftir birtir Kúrbíturinn listann með 22 hugmyndum um skemmtilega hluti sem hægt er að gera í Reykjavík og gerir Kúrbíturinn þá kröfu á þegna sína að koma með þær hugmyndir sem þeim dettur í hug. Kúrbíturinn mun síðan uppfæra listann um leið og flottar hugmyndir berast.
1. Halda sína eigin menningarnótt, kíkja sem sagt á fullt af söfnum, tónleikum og öðrum atburðum um daginn og hrynja síðan í það að íslenskum sið um nóttina. Þetta er hægt að gera hvenær sem er allan ársins hring. Lifi menningin!!!
2. Kíkja á íslenskan knattspyrnuleik því þá verður maður svo ánægður með knattspyrnuna sem maður sér alltaf í sjónvarpinu.
3. Kíkja á Ölver, horfa á eitt stykki knattspyrnuleik, eina kollu af bjór og eiga tilgangslausar samræður um allt og ekki neitt.
4. Kíkja á kaffihús með félögunum og kjafta saman um einhver mjög svo óarðsama hluti sem engu máli skipta.
5. Labba niður Laugaveginn, skoða í búðarglugga, stunda mannlífsathuganir og kíkja inn á bar í kannski einn eða tvo stóra.
6. Kíkja í kvikmyndahús, horfa á eitt stykki heilalausa bandaríska vellu og uppgötva hvað við erum nú heppin að Ísland tilheyri Evrópu.
7. Kíkja niður í Nauthólsvík, skella sér á ströndina, fá sér bjór og sleikja sólina.
8. Grilla íslenska lambakjötið fyrir vini og vandmenn á svölunum heima, drekka mikið og enda síðan á trúnó fram undir morgun.
9. Fara á Súfistann, fyrir ofan Mál og menningu á Laugaveginum, fá sér stóran latte í skál og ná í öll uppáhaldstímaritin sín, skoða þau þangað til kaffið er búið, jafnvel fá sér annan ef maður er ekki búinn að skoða það sem maður langar til að skoða.
10. Kíkja í leikhús, maður gerir það ekki oft en alveg þess virði.
11. Kíkja upp í Heiðmörk, slappa af, liggja í leti og borða nestið sitt.
12. Fara í sund í Árbæjarlaugina, fara síðan á línuskautum eða hjóli niður í Nauthólsvík og fá sér kaffi á Nauthól.
13. Taka skák við einhvern rosa skákmeistara á Grand Rokk, drekka fullt af bjórum á meðan skákinni stendur og afsaka sig að mikil drykkja hafi orðið til þess að maður tapaði svona illa.
14. Kíkja í Kringluna á laugardegi, tala um það hvers konar fólk kemur hingað i búðaráp á laugardegi og ganga síða út úr Kringlunni 5 klst. síðar klyjaður af pokum eftir velheppnaða verslunarferð eftir allt saman.
15. Fara að borða á góðan veitingastað í miðbæ Reykjavíkur, með fullt af góðum vinum og með "tilbúinn að eyða peningum" hugarfarið. Sitja lengi, drekka mikið og skemmta sér konunglega fram á rauða nótt.
16. Kíkja á Ölver og fá sér nokkra stóra, syngja eins og brjálæðingar í Karaoke og fíla sig sem poppstjörnu í eitt kvöld.
17. Taka sér göngutúr um Þingholtin á fallegu haustkvöldi, skoða húsin og reyna að upplifa stemminguna sem býr í þessu fallega hverfi Reykjavíkur, þar sem sjarminn og stemmingin er einfaldlega meiri en annarsstaðar.
18. Kíkja á Svarta kaffi á Laugaveginum og fá sér hina rómuðu brauðsúpu.
19. Rölta upp í turninn á Hallgrímskirkju og byggingar og mannlíf Reykjavíkurborgar frá þess gæðasjónarhorni. Rölta síðan niður Skólavörðustíginn og kíkja í gallerýin, t.d. er Linda Ólafs með nokkrar góðar myndir í einu þeirra.
20. Bíltúr í bestu ísbúð í heimi, Ísbúðina á Hjarðarhaga, fá sér "gamla" ísinn og keyra svo niður í Skerjafjörð og horfa á blásilfrað ólgandi hafið.
21. Fá sér Tjarnargöngutúrinn og skoða lífið umhverfið Tjörnina....svíkur engan.
22. Að fara í göngutúr í grenjandi rigningu og hávaðaroki um Elliðaárdal eða aðrar perlur Reykjavíkurborgar.
23. Kíkja á Bæjarins bestu, fá sér eina með öllu og háma hana í sig
24. Kíkja á litla kaffihúsið sem staðsett er í Grasagarðinum í Laugardal. Hverfa þangað inn sérstaklega þegar veðrið er brjálað...maður situr inn í sveittum "tropical" fíling, með gullfiskana svamlandi í tjörninni, alskyns furðuleg og útlandaleg blóm og og ilminn sem þeim fylgir
25. Kíkja i Kolaportið, skoða úrvalið, prútta um verðin og koma heim með heilu bílskúrana af dóti...í það minnsta poka af harðfisk
Þetta er ekki tæmandi listi yfir það sem er skemmtilegt að gera í Reykjavík. Nú er það ykkar að commenta á þetta, einnig getið þið sent tölvupóst á kjartansturluson@hotmail.com og í sameiningu skulum við bæta við og bæta við þennan lista.....
4 ummæli:
Takk Tinna
Otrúlegt að Kúrbíturinn hafi gleymt Bæjarins bestu...gerist ekki aftur. Kúrbíturinn er virkilega miður sín að hafa gleymt þessu meistarastykki í hjarta borgarinnar sem þessi pylsusjoppa virkilega er.
Aftur á móti telur Kúrbíturinn að horfa á vídéó sé algjörlega óháð borginni (óháð stað og stund) sem maður er staddur í og KFC kemst ekki á topp 3000 listanum yfir skemmtilega hluti sem hægt er gera í Reykjavík
Kúrbíturinn
...það er lítið snilldarkaffihús í grasagarðinum í Laugardalnum....ótrúlega nice að hverfa þangað inn sérstaklega þegar að veðrið er brjálað....maður situr inní sveittum "tropical" fíling, með gullfiskana svamlandi í tjörninni við hliðiná sér, alskyns furðuleg og útlandaleg blóm og lyktina sem þeim fylgir...en alveg þetta yndislega týpíska *brjálæðis-rokslabbfrostveður* fyrir utan....mæli með því!!
Síðan er náttúrulega alltaf gaman að kíkja á "fríksjóið" (afsakið orðbragðið - but it´s true) svona annarslagið...öðru nafni Kolaportið...en ss ekkert rómó né notalegt við það eheheh :)
Það er alltaf hægt að treysta á Svetly...
Kúrbíturinn
Það væri kannski ágætt að taka einn helgarpabbavaríant með í þetta. Fátt betra en að fara í bakarí, kaupa kókómjólk og nokkrar kleinur. Fara með barnið í húsdýragarðinn og borða bakkelsið á meðan dýrin eru skoðuð. Eftir þetta er tilvalið að fara í sund en varast Laugardalslaugina, stóra rennibrautin þar er vissulega mjög freistandi en tröppurnar upp í hana ansi margar, sérstaklega þegar bera þarf 20 kílóa gutta upp þær 10-15 sinnum. Pabbi, bara einu sinni enn! fer að verða þreytandi eftir fyrstu 10 skiptin :-)
kv,
Björninn
Skrifa ummæli