mánudagur, 5. júní 2006

Minning um meistara...
Kúrbítsfjölskyldan átti eitt sinn hest sem var sannkallaður meistari. Sambland af James Dean, Steve McQueen og Marlon Brando. Meðfæddur töffaraskapur, yndislegir leiðtogahæfileikar og trúr sjálfum sér allt til dauðadags. Þegar honum fannst þetta orðið gott, lagðist hann á hliðina og sofnaði svefninum langa. Í fallegri sveit á fallegri sumarnóttu.

Kúrbíturinn ákvað eitt sinn að leggja á sjálfan meistarann. Þetta var góður dagur fyrir næstum 15 árum. Eftir nokkra stund kom bersýnilega í ljós að þetta var ekki dagur meistarans. Gerði ekkert og vildi ekkert sem Kúrbíturinn bað hann um að gera. Á endanum steig Kúrbíturinn af baki, gekk fyrir framan meistarann og sagði nokkur vel valin orð í eyra hans. Eitthvað fóru þessi orð fyrir brjóstið á meistaranum, sveiflaði höfðinu og sló Kúrbítinn steinkaldan í jörðina.

Á meðan Kúrbíturinn lá í valnum án vitneskju í þennan heim né annan skokkaði meistarinn heim á leið. Eftir drykklanga stund steig Kúrbíturinn á fætur og hélt sömu leið á tveimur jafnfljótum. Vinstri kannski örlítið fljótari en sá hægri. Alllöngu síðar gengur Kúrbíturinn í hlað með skottið á milli lappanna. Meistarinn hneggjaði sigri hrósandi og hló upp í opið geðið á Kúrbítnum.

Kúrbíturinn var tekinn í rassgatið...

Engin ummæli: