Nú er ég kominn í langt frí frá keppni í þessari guðdómlegu listgrein..... knattspyrnu, næsti leikur er ekki fyrr en 10. ágúst. Það er alltaf frábært að fá svona frí og geta hugsað um eitthvað annað en knattspyrnu. Við spiluðuðum einn af okkar bestu leikjum í gær, á móti ÍBV, og var ég mjög sáttur við leik okkar. Það er góður stigandi í liðinu og vonandi mun spilamennska okkar halda áfram að batna á næstu vikum. Það eru spennandi tímar framundan í ágúst og margir skemmtilegir leikir, bæði í Íslandsmóti og Evrópukeppni félagsliða.
En framundan er Verslunarmannahelgin og ég held að það sé skylda manns að taka aðeins á því um þessa helgi, komast út úr bænum og slaka aðeins á. Samt er ég ekki að segja að ég ætli mér að fara í pollagallann og velta mér blindfullur upp úr náttúru landsins í 4-5 daga, þó það sé nú svolítið freistandi. Ég held ég ætti nú að sýna kærustunni, félögunum, náttúrunni og sjálfum mér þá virðingu að halda mér þokkalega á mottunni. Niðurstaðan mín er því sú að ég ætla mér að halda mig við það að vera edrú á daginn en fullur á nóttinni, hluta úr helginni eða alla helgina. Þetta er svolítið víð ástandsskilgreining en er ekki alltaf gott að halda þessu bara opnu og láta hlutina bara gerast einhvern veginn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli