miðvikudagur, 6. ágúst 2003

Það er pressa á mér núna, er að fara að bjóða íslenskum félaga mínum, ítalskri kærustu hans og íslensk/ítalskri dóttur hans í mat í kvöld. Hvað getur maður gert? Ekki fer maður að elda Spaghetti alla Carbonara, Risotto Milanese eða Bucatini all'amatriciana, það er alveg glatað að bjóða ítala upp á ítalskan mat á Íslandi. Þá dettur manni í hug að elda eitthvað alveg séríslenskan rétt, þá dettur manni í hug bjúgu, íslenska kjötsúpu eða soðna ýsu með hömsum.......það er nokkuð ljóst að það kemur ekki til greina. Ekki fer ég að slá um mig með einhverjum alþjóðlegum matseðli því við Fríða erum nú einu sinni íslensk, búum á Íslandi og erum bara nokkuð stolt af því. Hvað er hægt að gera til að hitta í mark þegar svona stendur á? Það er alltaf einn hlutur sem gæti bjargað kvöldinu, það eru grilluð lambaframlæri með piparostasósu, borið fram með salati og bökuðum kartöflum...þetta hljómar vel og hráefnið er allt íslenskt. En maður verður að bjóða upp á rauðvín með þessu, ég hef ákveðið að vera með tvær ítalskar flöskur og eina frá Chile.......ekki það að ég sé eitthvað að snobba fyrir víni eins og einhver poppari, að slá um mig með því að segja að þessi vín eigi best með þessum mat bla bla bla bla...... Ástæðan er einföld, þetta eru afgangar frá verslunarmannahelginni og meira að segja ætla ég að uppljóstra því að hver og ein þessara flaskna kostaði undir 1000 krónum. Ég að tala um að vera að uppljóstra....það skiptir engu máli því það les þetta enginn.

Engin ummæli: