Það er þungu fargi af mér létt í dag því mér tókst ekki að klúðra matarboðinu í gærkvöldi eins og ég bjóst reyndar sjálfur alveg eins við. Svona er þetta, maður fer stundum jafnvel langt fram úr eigin væntingum og kemur sjálfum sér skemmtilega á óvart. Félagi minn kom með tveggja mánaða gamla ítalsk/íslenska dóttur sína og mér fannst ég heyra ítalskan hreim hjá þeirri litlu þegar hún grét. Það er nú samt ekki margt ítalskt við hana....hún drekkur ekki kaffi, ekki rauðvín, og mætti næstum því á réttum tíma. En það nú samt sumt svolítið ítalskt við hana......hún æsir sig þegar henni hentar og tekur sér eins langar siestur og henni langar. En númer 1,2 og þrjú að matarboðið klúðraðist ekki, maturinn smakkaðist ágætlega og allir voru bara nokkuð sáttir.
Ég og Fríða fengum nokkuð góðar fréttir í gærkvöldi, það er að losna íbúð í Mílanó um áramótin, sem er mjög nálægt Bocconi-University, og er í mjög góðu hverfi. Þetta er pínulítil íbúð en nógu stór fyrir okkur Fríðu, því þetta yrði ekki í fyrsta sinn sem við búum í 30 fermetra íbúð. Það er mun mikilvægara að íbúðin sé vel staðsett, snyrtileg og ódýr en að hún sé fimmtán herbergja með þrem klósettum, tveimur örbylgjuofnum og sundlaug. Þetta er allt spurning um þá tilfinningu sem maður fær fyrir íbúðinni, að það sé góður andi í henni og að manni líði virkilega vel í henni. Það er einnig mjög mikilvægt að í nágrenninu séu góðir veitingastaðir og kaffihús, maður verður að vera sólginn í góðan mat, gott kaffi og rauðvín í lítravís til að fara ekki á mis við það besta sem borgin hefur upp á að bjóða. Nú bíðum við bara spennt eftir nánari fréttum af þessari íbúð og krossleggjum fingur um að þetta gangi allt saman upp.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli