föstudagur, 8. ágúst 2003

Ég sá gömul hjón út um gluggann minn í morgun sem voru eftirtektarverð. Hann hefur verið um áttrætt, vel á sig kominn og virkaði við hestaheilsu. Hann var í gömlum stífpressuðum jakkafötum, það sást vel að þau voru komin til ára sinn vegna þess að þau voru eydd á álagsstöðum en voru mjög flott. Bar hann þau vel og hafa þau örugglega verið klæðskerasaumuð á sínum tíma svo vel fóru þau á honum. Skórnir sem hann var í voru óaðfinnanlega pússaðir en það sást vel að skórnir voru ekki nýjir því leðrið bar þess merki. Hann var með hatt og staf sem hann hefur örugglega verið með í fjölda mörg ár. Konan hans sem hefur verið á svipuðum aldri var klædd í litríkan sumarkjól, velpússuðum skóm með lágum hæl, með hatt og veski í stíl við kjólinn. Þau leiddust eftir gangstéttinni og virkuðu hamingjusöm, hlógu hvort að öðru og skemmtu sér vel. Allt í einu stöðvuðust þau og maðurinn tók sér góðan tíma að ná eitthvað í vasa sínum. Það sem hann tók úr vasa sínum var stórglæsilegt vasaúr gert úr gulli, þetta hefur örugglega verið ættargripur sem gengið hefur manna á milli. Hann tók sér góðan tíma til að kíkja á úrið, setti það síðan í vasa sinn og svo gengu þau rólega áfram.

Það sem var eftirtektarvert var stíllinn og glæsileikinn sem þau báru með sér, allt var pússað og allt var pressað. Þau höfðu fáséðan stíl og glæsileika sem maður sér ekki oft. Þegar ég verð gamall þá verðum við Fríða svona....það er alveg á hreinu.

Engin ummæli: