föstudagur, 22. ágúst 2003

Nú eru ekki nema rúmir fjórir mánuðir í brottför okkar Fríðu til Mílanó þar sem við munum eiga okkar heimili næsta árið og kannski lengur en það. Ég get ekki sagt annað en að það sé kominn smá fiðringur í mann, tilhlökkun og eftirvænting að fara á fornar slóðir á nýjan leik.

Það eru mörg lítil atriði sem sem maður saknar frá Mílanó. Hér á eftir koma topp 15 listi yfir atriði sem ég sakna frá Mílanó:

1. Að geta farið út í matvörubúð og keypt sér rauðvínsflösku á 3 evrur (270 kr.).

2. Að fara út á uppáhalds kaffihúsið og fá sér espresso og "briosce con crema". Briosce er líkt og og croissant með eggjakremi innan í, mitt uppáhald.

3. Fara með Fríðu á Monopoli, uppáhalds pizzeriuna okkar, og fá sér eina góða pizzu á haus, 1 líter af rauðvíni og espresso á eftir. Öll þessi herlegheit kosta samtals aðeins 20 evrur (1.800 kr.).

4. Að vakna upp á hverjum morgni vitandi það að það sé logn, enginn vindur....aðeins logn.

5. Að hafa um það val að geta reykt á veitingahúsum, börum og kaffihúsum. Það er ekki bannað að reykja á 50% allra borða á öllum veitingahúsum, börum og kaffihúsum eins og hér á landi, það er aðeins bannað að reykja ef eigandinn hefur sjálfur ákveðið það. Breytist kannski í framtíðinni....erfitt að segja.

6. Að lenda í því að ákveða hvort maður vilji heldur fara á skíði eða liggja á ströndinni einhverja helgina, þó valið sé ekki erfitt fyrir mig þá alltaf gott að hafa val.

7. Að geta fengið sér eitt rauðvínsglas og keyrt heim án þess að eiga það á hættu að missa prófið í ár og borga 100.000 krónur í sekt....kannski svolítið extremedæmi en er í áttina.

8. Að geta farið á knattspyrnuleik og séð boltann fara oftar en þrisvar á milli leikmanna.

9. Að vera í skóla þar sem selt er áfengi í kaffiteríunni.

10. Að þurfa ekki að stoppa á rauðu ljósi ef það er engin umferð, óskráðar reglur þess efnis eru til staðar í Mílanó.

11. Að geta keypt mér Pocket Coffe í næstu matvörubúð, súkkulaðimolar með espressofyllingu....alveg svakalega gott.

12. Að fá mér líkjörinn Montenegro eftir mat. Þetta er snilldardrykkur, stemmir magann eftir mikið át og alveg svakalega góður á bragðið (mér finnst það að minnsta kosti).

13. Að greiða 0,8 evrur (70 kr.) fyrir einn espresso í staðinn fyrir 180 kr. eins og hann kostar hér á landi.

14. Að geta fengið sér rauðvín eða bjór með hádegismatnum án þess að maður sé litinn hornauga, dæmdur eins og maður sé einhver alkahólisti.....lifi dagdrykkjan.

15. Að uppgötva fullt af nýjum góðum hliðum á Íslandi, þessu landi þar sem ég fæddist......því stundum sér maður ekki trén fyrir skóginum.

Þegar maður kíkir yfir þennan lista þá kemur það í ljós að nánast öll atriðin tengast mat og áfengi...........sem er mjög gott.

Engin ummæli: