mánudagur, 8. september 2003

Lifi Ísland
Íslenska landsliðið spilaði einn af sínum allra bestu leikjum frá upphafi á móti Þýskalandi á laugardaginn. Það er ekki oft sem maður sér íslenska landsliðið eiga í fullu tré við jafn virta knattspyrnuþjóð og jafn þekkta knattspyrnumenn. Íslenska liðið sýndi þeim þýsku nákvæmleg enga virðingu, þeir börðust um hvern einasta bolta og númer 1, 2 og 3 var íslenska liðið að spila mjög góðan fótbolta. Liðið var allt að spila frábærlega, allt frá Árna Gaut í markinu til Eiðs í fremstu víglínu. Gaman var að sjá Heiðar Helguson hnakkrífast við sjálfan Oliver Khan, Lárus Orra taka sínar skemmtilegu tæklingar og æðislegt var að sjá Oliver Khan vera að reyna tefja leikinn undir lokinn......því þýska stálið var einfaldlega hrætt við okkar menn og máttu þeir prísa sig sæla að fara með eitt stig af klakanum.

Við skulum taka að ofan fyrir íslenska liðinu og hananú!!

Rómeó & Júlía
Ég fór í leikhús í gær......stórkostleg sýning. Það er orðið langt síðan að ég hef skemmt mér svona vel í leikhúsi, er ekki viss um að neitt toppi þessa sýningu. Þessi sýning var skemmtileg, fór vel með sjálfa söguna, þetta var töffarasýning, blandaði nútímalegu máli inn í söguna á skemmtilegan hátt ásamt því að nokkrir söngtextar voru sungnir í sýningunni, leikararnir voru mjög góðir, fimleikaatriðin flott og leikmyndin mjög töff.

Það mátti sjá nokkur áhrif frá kvikmyndinni Moulin Rouge, þar sem Ewan McGregor og Nicole Kidman voru í aðalhlutverkum. Það voru nokkrar persónur sem mátti finna samsvörun í Moulin Rouge, t.d. kynnirinn og vinirnir hans Rómeó voru hafðir svolítið ýktir. Þessi áhrif hafi kannski verið meðvituð og hafi átt að vera...ekki veit ég um það. Ef þú fílar Moulin Rouge í tætlur þá fílar þú þessa sýningu í tætlur.

Það er frábært að það skuli vera búið að selja þessa hugmynd til London þar sem verkið verður sett upp í nánustu framtíð. Þau fá hrós dagsins í dag...það er engin spurning.

Lífið er ein stór ákvörðun
Lífið snýst um endalausar ákvarðanir og niðurstaða lífsins veltur á því hvaða ákvarðanir við tökum á lífsleiðinni. Mjög stórt hlutfall af ákvörðunum okkar tökum við algjörlega ómeðvitað, við tökum þær af vana. Sumar af þessum ómeðvituðu vanaákvörðunum tökum við einu sinni ári, aðrar oft á ári, sumar á hverjum degi og enn aðrar oft á dag. Við tökum þessar ákvarðanir ómeðvitað þrátt fyrir það að þær séu óhliðhollar okkur sjálfum og fólkinu sem ákvörðunin hefur áhrif á. Hver er þá tilgangurinn með þessari ákvörðunartöku okkar........nánast engin. Þessi ómeðvitaða ákvörðunartaka sem hefur slæm áhrif hlýtur því að skýrast af leti og vanaviðbrögðum. Það er því mikilvægt að við skoðum okkur sjálf aðeins, hugsum á rökréttan hátt um hverja þá ákvörðun sem við tökum og spyrjum okkur sjálf í hvert skipti að þessari spurningu....hefur þessi ákvörðun ákvörðun góð áhrif á sjálfan mig og þá sem hún hefur áhrif á? Í setningaræðu Háskóla Íslands hefur Palli Skúla oftar en ekki talað um gagnrýna hugsun en í henni felst nákvæmlega það sem sagt hefur verið hér að ofan. Þetta er spurning um að líta á heiminn með gagnrýnum augum og spyrja sjálfan sig hvort þessi ákvörðun mín gefi góða niðurstöðu fyrir alla.

Það hafa allir skoðanir á hinum ýmsu viðfangsefnum en sumir hafa meiri þörf fyrir að koma þeim á framfæri en aðrir og jafnvel vilja koma öllum öðrum á sína eigin skoðun. Það er mikilvægt að skoða öll mál frá öllum hliðum, því það vill svo skemmtilega til að öll mál hafa fleiri eina hlið, halda má mörgum skoðunum á lofti og rökstyðja þá skoðun sína á málefnanlegan hátt. Það er því ekki málefnanlegt að halda fast fram einhverri umdeildri skoðun án þess einu sinni taka tillit til annarra hliða á málinu. Það fólk sem er í sí og æ að halda fram skoðunum sínum í dag, skiptir um skoðun á morgun og finnnst það hafa verið ótrúlegt að hann hafi áður haldið þessari vitleysu fram sem hann áður gerði. Svo er til annað fólk sem heldur sínum skoðunum hátt á lofti, vill ekki einu sinni ræða málin og tönglast á setningunni "þetta er bara svona". Þessu er hægt að komast hjá ef litið er á málin í upphafi með gagnrýnu hugarfari og með því að reyna sjá málin frá sem flestum hliðum. Þeir sem endalaust eru að halda sínum skoðunum á lofti eru endalaust að lenda í árekstrum og rifrildum við annað fólk í þeim tilgangi einum að verja skoðanir sínar og jafnvel að fá annað fólk yfir á sínar skoðanir. Maður getur skilið að stjórnmálamenn þurfa að gera þetta daginn inn og daginn út......en afhverju við hin? Afhverju getum við ekki leyft öðru fólki að hafa sínar skoðanir án þess að við séum að reyna að koma þeim yfir á okkar? Með þessu er ég ekki að segja að við eigum ekki að tala um hlutina heldur eigum við ekki að vera einstrengisleg og reyna að halda því fram að okkar skoðanir séu þær einu réttu. Við eigum að ræða málin með opnum hug og á málefnalegan hátt....með það í huga í að það gæti nú verið eitthvað til í því sem viðmælandinn er að segja.

Engin ummæli: