miðvikudagur, 12. nóvember 2003

Dagbók Kúrbítsins........þriðjudaginn 11. nóvember
Kúrbíturinn fór í World Class í gær og hljóp í 50 mínútur, það verður að fylgja sögunni að Kúrbíturinn hljóp einungis 7 km á þessum langa tíma. Kúrbítnum fannst fínt að hreyfa sig smá eftir nokkuð langa hvíld vegna þessa uppskurðs sem hann fór í um daginn. Þegar heim var komið settist Kúrbíturinn upp í sófa og las einhverja ítalska bók. Þetta er hluta af viðleitni hans til þess að rifja aðeins upp þá ítölskukunnáttu sem hann hafði eitt sinn yfir að ráða.....sem var nú aldrei ýkja mikil. Síðan þegar klukkan var 23.17 þá kveikti Kúrbíturinn á sjónvarpinu til þess að horfa á heimildamynd um ítalska leikstjórann Federico Fellini. Frábært hvað dagskráin er sett upp nákvæmlega á RÚV og hún stóðst upp á mínútu.....kannski er ekki alltaf þannig farið. Þessi heimildamynd um þennan mikla meistara var mjög góð og engin spurning að um mikinn meistara var þarna á ferð. Hann leikstýrði myndum á borð við La Dolce Vita, 8 1/2 og La Strada en Kúrbíturinn sá einmitt þá fyrstnefndu um daginn og gefur Kúrbíturinn henni mjög góða dóma.

Kúrbíturinn....fylkisslúður af Fótbolta.net
Þetta slúður las Kúrbíturinn á fótbolti.net: "Birkir Kristinsson landsliðsmarkvörður hefur verið orðaður við félagið sem hugsanlegur arftaki Kjartans Sturlusonar í markinu". Kúrbíturinn hefur ekki heyrt neitt um það að Fylkir ætli sér að fá utanaðkomandi markvörð til að fylla skarð hans og því kemur þetta slúður honum mjög á óvart. Kúrbíturinn trúir því og vonar að stjórn félagsins muni treysta Bjarna Þórði til þess að verja mark Fylkis á næsta keppnistímabili. Kúrbíturinn vill ennfremur koma á framfæri þeirri skoðun sinni að hann telji Bjarna Þórð Halldórsson 100% tilbúinn til þess að taka stöðu hans og styðji hann fullkomlega til verksins.

Kúrbíturinn......með fréttir frá Ítalíu
Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, telur sig vera mikinn andkommúnista og hefur því án efa glaðst í gær þegar gata í Mílanó fékk nýtt nafn. Gatan sem áður var nefnd Via Palmiro Togliatti eftir Palmiro Togliatti stofnanda ítalska kommúnistaflokksins. Hér eftir mun gatan heita Via 9. Novembre 1989 en þann dag féll Berlínarmúrinn.

Engin ummæli: