þriðjudagur, 11. nóvember 2003

Libertas Brera F.C.........níundi leikurinn í röð án taps
Libertas Brera F.C. vann öruggan sigur á slöku liði Sporting S.Donato á heimavelli, 2-0. Leikmenn Libertas Brera F.C. skoruðu bæði mörkin í fyrri hálfleik og í þeim seinni átti liðið mörg marktækifæri sem fóru öll forgörðum. Lið Sporting S.Donato getur þakkað markverði sínum að ekki fór verr því oft á tíðum sýndi hann stórkostleg tilþrif.

Libertas Brera F.C. er enn í fimmta sæti og röð efstu liða breyttist ekkert þrátt fyrir leiki helgarinnar. Hægt er að nálgast stöðuna með því að smella hér. Um næstu helgi mætir Libertas Brera F.C. liði Mezzanese á útivelli. Mezzanese hefur einungis unnið einn leik á heimavelli það sem af er leiktíðar og er því mikil pressa á leikmenn Libertas Brera F.C. að taka þrjú stig úr þessum leik.

Libertas Brera F.C. spilar heimaleiki sína á hinum glæsilega leikvangi Arena Civica sem staðsettur er í stórum almenningsgarði miðsvæðis í Mílanó. Hægt er að skoða myundir af leikvanginum með því að smella hér.

Dagbók Kúrbítsins........mánudagurinn 10. nóvember
Það gerðist lítið hjá Kúrbítnum þetta mánudagskvöld. Kúrbíturinn kom heim úr vinnunni klukkan 19.30, glaður í hjarta sínu og í mikilli sátt við allan heiminn. Settist á spjall við Hörpu og sína kvinnu, fékk sér að borða einn fátæklegasta kvöldmat sem Kúrbíturinn man eftir. Í kvöldmat fékk Kúrbíturinn sér tvær brauðsneiðar með kotasælu og einfaldan espresso á eftir.....það gerist varla fátæklegra. Að því loknu fór Kúrbíturinn að vaska upp og meira að segja þurrkaði af borðunum......Kúrbíturinn var svo sannarlega duglegur. Þegar klukkan var að verða níu hlammaði Kúrbíturinn sér í sófann til þess að horfa á heimildamynd um N-Kóreska einræðisherrann Kim Jong Li. Þessi mynd var nokkuð áhugaverð þó Kúrbíturinn taki alltaf svona myndir með ákveðnum fyrirvara þegar þær eru framleiddar í Bandaríkjunum.......þær eru kannski ekki alltaf 100% hlutlausar. Það var t.d. mjög sérstakt að heyra söguna þegar hann rændi frægustu leikkonu og frægasta leikstjóra annaðhvort S-Kóreu eða Japan...Kúrbíturinn hreinlega man það ekki hvort það var, til þess að reyna að gera betri kvikmyndir í N-Kóreu. En á heildina litið var þetta ágætis mynd sem Kúrbítnum fannst nokkuð áhugaverð. Svona var nú mánudagskvöldið 10. nóvember 2003 hjá Kúrbítnum.

Kúrbíturinn....tók í hendina á Hebba kóng
Kúrbíturinn vill að heimurinn viti að Kúrbíturinn tók í hendina á Herberti Guðmundssyni á uppskeruhátíð Fylkis, síðastliðið laugardagskvöld. Herbert fór svo sannarlega hamförum á sviði Fylkishallarinnar og sló í gegn svo um munaði. Kúrbíturinn er glaður í hjarta sínu, stoltur af þessum atburði og að sjálfsögðu ekki búinn að þvo sér um hendurnar síðan þá og mun ekki gera.

Fyrir mörgum árum síðan var Kúrbíturinn staddur á Kofa Tómasar frænda að skemmta sér og á staðnum var mættur sjálfur kóngurinn, Herbert Guðmundsson. Hann var eitthvað að smeygja sér á milli borða en þar sem þröngt var á þingi endaði þessi för hans með ósköpum. Hann rak sig í kerti og það datt um koll, Herbert fattaði ekki neitt og hélt ferð sinni áfram. Aftur á móti féll kertið á Kúrbítinn og jakkaföt Kúrbítsins urðu öll í kertavaxi. Kúrbíturinn er stoltur af því að kertavaxið hafi farið á jakkafötin hans, fyrirgaf Herberti í hjarta sínu og hefur ekki sett þessi jakkaföt í hreinsun frá þeim degi til dagsins í dag.

Engin ummæli: