Dagbók Kúrbítsins......helgin 14-16. nóvember
Hér á eftir mun Kúrbíturinn stikla á stóru um atburði helgarinnar............
Föstudagur
Eftir vinnu ætlaði Kúrbíturinn að vera rosalega duglegur, fara í World Class og hreyfa sig eitthvað. Kúrbíturinn dreif sig á staðinn, klæddi sig í sportgallann og fór á hlaupabrettið. Kúrbíturinn gekk í tíu mínútur, byrjaði svo að hlaupa en eftir tæpar tíu mínútur gafst Kúrbíturinn upp, sparkaði í hlaupabrettið og strunsaði í fússi heim á leið. Þegar Kúrbíturinn kom heim eftir raunir líkamræktarinnar eldaði hann stórkostlegan mat fyrir kvinnu sína. Kúrbíturinn töfraði fram kjúklingabringur fylltar með rauðu pestói, sólþurrkuðum tómötum og fetaosti sem hreinlega bráðnaði í munnum Kúrbítsins og hans kvinnu. Síðan var horft á Idol-ið, Gylfi og Harpa kíktu í heimsókn og kvöldið allt hin mesta skemmtun.
Laugardagur
Um morguninn fór Kúrbíturinn í World Class og að þessu sinni tókst honum að þrauka á hlaupabrettinu í tæpan klukkutíma, horfði á seinni helminginn af C-myndinni Driven með Sylvester Stallone í aðalhlutverkinu. Síðan fór dagurinn í það að gera allt klárt fyrir útskriftarteitið sem kvinna Kúrbítsins hélt þá um kvöldið. Útskriftarteitið heppnaðist mjög vel og allir skemmtu sér stórkostlega að mati Kúrbítsins. Vinkvinnur kvinnu Kúrbítsins héldu stórkostlegt gigg þar sem ræðuhöld, gleði og söngur réðu ríkjum.....þess má geta að Kúrbíturinn ræð sér varla fyrir gleði. Stjarna kvöldsins var að sjálfsögðu kvinna Kúrbítsins enda er þar ótrúleg prinsessa á ferð.
Sunnudagur
Þetta var svona dæmigerður þynnkudagur sem fór í tiltekt og afslappelsi. Kúrbíturinn horfði á landsleik Englendinga og Dana og fagnaði kúrbíturinn mjög þegar Jon Dahl Tomasson skoraði sigurmark danska liðsins undir lok leiksins. Um kvöldið var síðan borðaður dýrindis kvöldverður hjá foreldrum Kúrbítsins, horft á sjónvarpið með tærnar upp í loft.
Sem sagt var hér um að ræða mjög skemmtilega helgi í alla staði..............
Libertas Brera F.C......tíundi leikurinn í röð án taps
Libertas Brera F.C. vann um helgina mjög mikilvægan útisigur á liði Mezzanese, 2-0. Við þennan sigur skaust Libertas Brera upp í 3. sæti deildarinnar og er til alls líklegt á þessari leiktíð. Leikurinn fór frekar rólega af stað, liðin voru að þreifa fyrir sér og hvorugt liðið vildi fá á sig mark í upphafi leiks. Fyrri hálfleikurinn var því mjög tíðindalítill og staðan í hálfleik 0-0. Leikmenn Libertas Brera F.C. komu mjög grimmir til leiks í upphafi seinni hálfleiks og áttu nokkur mjög góð færi en vörn Mezzanese var skipulögð ásamt því að markmaður þess varði nokkrum sinnum af stakri snilld. Það var ekki fyrr en á 80. mínútu leiksins að Libertas Brera F.C. braut ísinn með glæsilegu marki og fimm mínútum fyrir leikslok bætti Libertas Brera F.C. við öðru marki og innsiglaði glæsilega sigur liðsins.
Libertas Brera F.C. skaust upp í þriðja sæti deildarinnar með þessum sigri með 22 stig en Caratese situr sem fastast á toppnum með 23 stig. Hægt er að nálgast stöðuna með því að smella hér. Það er sannkallaður stórleikur um næstu helgi en þá mætir Libertas Brera F.C. toppliði Caratese á heimavelli sínum Arena Civica. Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir Libertas Brera F.C. því með sigri kemst liðið í efsta sæti deildarinnar, sannkallaður 6 stiga leikur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli