Kúrbíturinn óskar aðdáendum sínum nær og fjær, til sjávar og til sveita, lágum sem háum, ungum jafnt sem gömlum, dökkhærðum sem ljóshærðum, konum jafnt sem körlum, í lofti sem á láði, gagnkynhneigðum jafnt sem samkynhneigðum gleðilegrar helgar og farsældar í viku komandi.
Dagbók Kúrbítsins.....fimmtudaginn 27. nóvember
Í tilefni af afmælisdegi kvinnu Kúrbítsins var farið út að borða á Caruso......að sjálfsögðu varð ítalskur staður fyrir valinu. Þó Kúrbíturinn líki vel við flestan mat þá fer hann oftast á ítalska staði hér í borg. Þeir eru flestir ágætir þó þeir séu langt því frá að vera eitthvað ekta. Hér í borg eru til ágætir staðir eins og Ítalía, Galíleó, La Primavera, Hornið og að sjálfsögðu Caruso. Kúrbíturinn fékk sér pizzu í gær og smakkaðist hún alveg ótrúlega vel. Hún heitir Speziale og númer 67 á matseðlinum, á henni voru ætisþistlar, sólþurrkaðir tómatar, hvítlaukur og fetaostur. Kvinna Kúrbítsins fékk sér Ravioli með osti og hvítlauk í beikon-valhnetu-rjómasósu......sem smakkaðist mjög vel. Það er svolítið skrítið með stað sem gefur sig út fyrir að vera ítalskur að vín hússins sé ekki frá Ítalíu. Ennfremur var Kúrbíturinn ekki ánægður með espressobollann sem hann fékk eftir matinn en það er einn af þessum hlutum sem þarf að vera á hreinu á ítölskum stöðum. Þetta getur hafa verið ágætis espresso, Kúrbíturinn gerir bara mjög miklar kröfur enda góður vanur. Kúrbíturinn var ánægður með matinn og þjónustu á staðnum en staðurinn fær mínus í kladdann fyrir vín hússins og espressobollann eftir matinn. Eftir velheppnaða ferð á Caruso var farið til foreldra kvinnu Kúrbítsins, borðaðar heimsins bestu eplaskífur, drukkið kaffi og skrafað í góðra manna hóp. Eplaskífur eru litlar bollur sem dýfðar eru í sultu og flórsykur.......hreint út sagt stórkostlegar.
Kúrbíturinn vill koma því á framfæri að kvinna hans líkaði vel við gjafirnar, var í skýjunum og er Kúrbíturinn í skýjunum út af því að kvinna hans er í skýjunum......þetta setur pressu á kvinnu Kúrbítsins því Kúrbíturinn á afmæli milli jóla og nýárs.
Kúrbíturinn vill ennfremur óska kvinnu sinni til hamingju með annan í afmæli........hip hip húrra hip hip húrra
Kúrbíturinn......með fréttir frá Ítalíu
Í Mílanó þann 5. mars 2004 verða veitt verðlaun fyrir fegursta opna sportbílinn og sá sem varð fyrir valinu að þessu sinni var Porsche 911 Carrera 4S. Kúrbíturinn verður í Mílanó þegar verðlaunin verða afhent og bíður spenntur eftir boðsmiða á þessa stórkostlegu hátíð.
Í hverju er konan........
Að sjálfsögðu er konan klædd í svartan ermalausan bol og bláar gallabuxur í dag eins og alla aðra daga. Kúrbíturinn er búinn að komast að því að konan á að minnsta kosti þrjár mismunandi gerðir af svörtum ermalausum bolum. Hún hefur sem sagt ekki fengið eins mikinn magnafslátt af bolunum og kúrbíturinn hélt......ef allir bolirnir hefðu verið eins hefði hún getað haldið útboð og með því lækkað innkaupsverðið.
Garfield dagsins

Engin ummæli:
Skrifa ummæli