fimmtudagur, 26. febrúar 2004

Elliði snýr aftur.....
Elliði hefur lengi legið undir feldi, ekki skrifað opinberlega og látið lítið fyrir sér fara. Ástæða þess er sú að nokkrir Fylkismenn urðu nokkuð svekktir með ummæli hans á sínum tíma og sá Elliði þann kost vænstan að draga sig hlé. Það var eitthvað í pistlum Elliða sem fór fyrir brjóstið á þessum aðilum og þeir urðu nokkuð svekktir en Elliði vonar svo sannarlega að þeir hafi nú fyrirgefið honum. Elliði hefur ákveðið að taka lyklaborðið niður af hillunni og skrifa nokkra pistla á spjallsíðu okkar Fylkismanna.

Elliði er orðinn svolítið leiður á allri þessari umræðu um uppalda leikmenn, aðkeypta leikmenn, ungmennafélagsanda o.s.frv. Að sjálfsögðu á hvert félag að reyna að ala upp góða knattspyrnumenn, skapa góðan anda innan félagsins til þess að leikmenn þurfi stóra ástæðu til þess að yfirgefa félagið. Þetta hefur Fylkir náð að gera mjög vel á undanförnum árum og árangurinn ekki staðið á sér. Fylkir hefur oft á litið á sig sem ungmennafélag og að leikmenn félagsins eigi vera stoltir yfir því að FÁ að spila með félaginu. En svo þegar kemur að því að leikmenn fari t.d. í atvinnumennsku erlendis eða vilji skipta um félag innanlands þá breytist íslenska ungmennafélagið í stórklúbb á erlendan mælikvarða. Elliði er nokkuð sáttur við þá stefnu félagsins að verðleggja leikmennina sína upp að vissu marki en félagið má ekki á sama tíma líta á sjálft sig sem ungmennafélag og að uppaldir leikmenn félagsins eigi að sjálfsögðu að leika með félaginu til loka ferilsins nema að erlent lið kaupi þá á einhverju uppsettu verði.

Elliði er mjög ánægður með stöðu leikmannahóps félagsins í dag þó Elliða hefði fundist mikilvægara að fá til félagsins sterkan varnarmann í stað þess styrkja sóknarlínuna eins og gert var. Með þessum orðum er ég ekki að gera lítið úr Björgólfi enda um frábæran leikmann á ferð, Elliða fannst einungis sóknarlína félagsins vera sterk á pappírunum á síðastakeppnistímabili þrátt fyrir þó nokkra markaþurrð. Elliði hefur tröllatrú á nýjum aðalmarkmanni félagsins og veit fyrir víst að hann mun spila eins og sá sem valdið hefur á næstu leiktíð. Að auki hefur Elliði einungis heyrt stórgóðar sögur af hinum nýja og mjög svo unga markmanni sem fenginn var til félagsins fyrir nokkrum vikum. Elliði vonar að ungir leikmenn félagsins fái eldskírn sína í sumar og spili stórt hlutverk á komandi keppnistímabili.....þar sem þetta er góð tímasetning til þess að endurnýja liðið og leyfa ungum leikmönnum að spila stórt hlutverk með liðinu. Elliði er bjartsýnn fyrir tímabilið, býst við góðum árangri en hvort Íslandsmeistaratitillinn komi í Árbæinn verður að koma í ljós síðar.

Elliði hefur heyrt af miklum framkvæmdum í Gamla húsi á undanförnum vikum, framkvæmdirnar hafi tekist stórvel og allt gengið samkvæmt áætlun. Elliði hefur heyrt að Gamla húsið líti núna út eins og ríkisstofnum með stóru fundarherbergi sem enginn má fara inn í nema með leyfi formanns félagsins. Að auki hefur Elliði heyrt að þetta glæsilega fundarherbergi sé að stórum hluta ætlað til þess að taka á móti forsvarmönnum erlendra stórliða sem koma til lands þegar Fylkir spilar í Evrópukeppnum á vegum UEFA á næstu árum og áratugum....gamla ungmennafélagið Fylkir.

Elliði er einlægur Fylkismaður, mun styðja sitt félag til dauðadags og vonar svo sannarlega að félagið nái dollunni sem stefnt hefur verið að, leynt og ljóst, undanfarin ár.

Engin ummæli: