fimmtudagur, 4. mars 2004

Er liðið á réttri leið eða er allt á leiðinni til fjandans?
Elliði hefur í hyggju að fjalla um knattspyrnu frá ýmsum hliðum í pistlum sínum með sérstaka áherslu á hið stórkostlega félag... Fylki. Elliði mun ekki draga neitt undan, segja sína skoðun umbúðalaust en að sjálfsögðu minnast á allt það góða starf sem fer fram innan vébanda félagsins.

Á undanförnum árum hefur félagið náð stórkostlegum árangri og hefur fest sig í sessi sem eitt af bestu knattspyrnufélögum landsins. Á sama tíma hafa óánægjuraddir, bæði innan félagsins og utan þess, gerst háværari um að liðið liggi í vörn og reyni síðan að kýla boltann fram í þeirri von að fljótir framherjar nái á einhvern ótrúlegan hátt að koma boltanum í netið. Elliði er ekki alveg sáttur við þessa gagnrýni og mun hér á eftir færa rök fyrir því. Ein leið til þess að greina þessa stórkostlegu íþrótt er að skipta leiknum í tvo hluta, annars vegar þegar liðið er með boltann og hins vegar þegar liðið er án hans. Á undanförnum árum hefur Fylkisliðið spilað mjög vel án boltans, svo þegar liðið vinnur hann hefur verið sótt hratt. Aftur á móti hefur liðið verið stefnulaust og hugmyndasnautt þegar það hefur er með boltann. Þetta leikskipulag gekk ágætlega upp fyrstu árin en undanfarin 2-3 ár hafa andstæðingarnir fundið svör við þessum skyndisóknum og sóknarleikur okkar þar af leiðandi verið auðlesinn og fyrirséður. Að auki skoraði liðið mörg mörk úr föstum leikatriðum en undanfarin misseri hefur slíkt heyrt til undantekninga. Þegar andstæðingar liðsins hafa náð að koma í veg fyrir að það skori mörk með þessum tveimur aðferðum, skyndisóknum og föstum leikatriðum, hefur liðið ekki komið með nein svör á móti. Það er því mjög mikilvægt á þessum tímapunkti að stokka upp leikskipulagið, viðhalda því sem vel hefur verið gert og leggja mikla áherslu á að bæta það sem miður hefur farið. En hafa þarf það í huga að félagið á ekki að fara umbylta einu eða neinu á skömmum tíma heldur eiga þessar áherslubreytingar að koma hægt og bítandi. Af leikjum liðsins að undanförnu hefur Elliði ályktað að þjálfari liðsins leggi mikla áherslu á að bæta þann hluta leiksins þegar liðið er með boltann en á sama tíma hefur leikur þess án boltans ekki verið eins sterkur og vera skyldi. Þetta finnst Elliða ekki heillavænleg þróun, hann vill styrkja varnarleik liðsins, fá til félagsins sterkan varnarmann á næstu vikum og leggja áfram mikla áherslu á leik liðsins þegar það er ekki með boltann.

Elliða hefur alltaf fundist alltof lítið um að leikmenn fái þjálfun sem er sérstaklega sniðin að þeim. Elliða finnst þjálfunin einkennast af því að allir eigi að gera allt jafnt... smá svona ungmennafélagsandi. Varnarmenn æfa skottækni sína með skotæfingum jafnmikið og sóknarmenn liðsins, framfarir þeirra eru hægar. Skotæfingar varnarmanna eru eiginlega tilgangslausar því þeir komast nánast aldrei í skotstöðu í leik. Elliði heldur því fram að þeir fái að vera með af því að það er svo gaman... Sjaldan fá markmenn að æfa skottækni sína þrátt fyrir að það séu nánast jafnmiklar líkur á því að þeir komist í skotstöðu í alvöru leik eins og varnarmenn. Leikmenn eiga að einbeita sér að því sem þeir gera best, leggja áherslu á sína stöðu og ná árangri.

Elliði vill óska Fylkismönnum til hamingju með að hafa endurnýjað samning sinn við Bjarna Sigurðsson markmannsþjálfara, þar er snillingur á ferð og mun hann verða félaginu mjög mikilvægur á þessu keppnistímabili.

Elliði óskar Fylkismönnum velgegni á komandi keppnistímabili, vonar að félagið nái að bæta sinn besta árangur og vinni þar með tvöfalt í ár. Elliði getur að litlu leyti lagt sitt á vogarskálirnar, sendir einungis góða strauma og þvaður sem þetta í formi pistla sinna.

Lifi Fylkir... að eilífu.

Engin ummæli: