Stórar fréttir sem snerta Kúrbítinn...
Það gerðist margt og það gerðist mikið í gær sem mun snerta líf Kúrbítsins á næstu vikum og mánuðum...Kúrbíturinn er glaður því þetta voru góðar fréttir.
Fyrri fréttirnar voru þær að kvinna Kúrbítsins fékk þær ánægjulegu fréttir að hún hafi fengið starf í Indlandi, mun starfa þar í nokkra mánuði, öðlast þar stórkostlega reynslu og upplifa ólíka menningu beint í æð. Kúrbíturinn mun sakna hennar óstjórnlega mikið, verður viðþolslaus af söknuði og mun telja dagana þangað til hún kemur til Mílanó á nýjan leik.
Seinni fréttir dagsins voru þær að vinur Kúrbítsins, sjálfur Pétur Björn Jónsson, hringdi og sagðist vera á leiðinni til Mílanó. Ástæða þessa er að hann áskotnaðist einhverja snilldarmiða á stórleik AC Milan og Deportivo í Meistaradeild Evrópu og ákvað að skella sér í heimsókn til Kúrbítsins. Kúrbíturinn er í skýjunum yfir þessum ráðahag, hlakkar mikið til og telur niður dagana
Hvert stefnir Kúrbíturinn?
Um þessar mundir er Kúrbíturinn í mastersnámi í viðskiptafræði í Mílanó á Ítalíu eftir að hafa útskrifast sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Þrátt fyrir allt þetta nám þá er Kúrbíturinn ekki ennþá 100% viss um hvort hann sé á réttri leið með sinn feril, hvort slóðin sem hann fetar sé sú rétta. Þrátt fyrir þessar hugsanir er Kúrbíturinn ánægður með námið, líkar vel vistin og er fullkomlega sáttur við lífið og tilveruna.
Kúrbíturinn öfundar þá sem hafa fundið sér starfsferil sem þér eru fullkomlega sáttir við, stunda af ástríðu og hlakka til að takast á við vinnudaginn hvern einasta dag. Það er einhvern veginn þannig að Kúrbíturinn hefur sjaldan orðið gjörsamlega hugfanginn af neinu nema kvinnu sinni og knattspyrnu. Þar sem Kúrbíturinn sér ekki fram á það að geta starfað eingöngu við þessi viðfangsefni nema að verða atvinnumaður í knattspyrnu og húsmóðir á sínu heimili á milli æfinga og leikja....Kúrbíturinn hefur reynt á þennan möguleika en gekk ekki upp sem skyldi.
Kúrbíturinn hefur áhuga á nánast öllu sem er að gerast í heiminum en hefur ekki fundið fyrir hvata til þess að sökkva sér djúpt niður í eitthvert ákveðið svið. Af þessum sökum hefur Kúrbíturinn ekki fundið sér starfsvið sem hann er gjörsamlega heillaður að og langar að leggja fyrir sig af fullum þunga. Kúrbíturinn er meira fyrir það að vilja viða að sér yfirborðskenndri þekkingu á ótal mörgum sviðum en það vill oft ekki vera gott veganesti til árangurs í leit að draumastarfinu....nema starfið felist í fréttamennsku, pólitík eða auglýsingagerð.
Kúrbíturinn hefur þrátt fyrir þessar vangaveltur þá von í brjósti að finna starfshamingju á einhverjum vettvangi á næstu árum eða áratugum. Kúrbíturinn er rólegur í tíðinni, tekur hverjum degi opnum örmum og hlakkar til að takast á við þau verkefni sem bíða hans í framtíðinni.....hvað það verður verður tíminn að leiða í ljós.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli