miðvikudagur, 7. apríl 2004

Haglél, þrumur og eldingar...
Kúrbíturinn varð vitni að ótrúlegum veðurham í gær sem lengi verður í minnum hafður. Eftir sólríkan og heitan dag dró allt í einu svört ský fyrir sólu og himininn hóf stórskotahríð á hina einu sönnu Mílanóborg. Með þessum svakalegu höglum fylgdu svakalegar þrumur og eldingar svo að himininn lýstist upp á sérstakan hátt. Þessi veðurhamur stóð stutt yfir, að honum loknum þornuðu stræti og torg og allt varð eðlilegt á nýjan hátt...fljótt skipast veður í lofti á við á fleiri stöðum en Íslandi.

Meðan á þessu stóð Kúrbíturinn í glugganum sínum og horfi á herlegheitin með rauðvín í annarri og vindil í hinn...lífið leikur svo sannarlega við Kúrbítinn þessa daganna.

Ótrúlegur töffari...
Kúrbíturinn sá ótrúlegan töffara í gær, tók ofan hattinn fyrir honum og ætlar sér að taka hann til fyrirmyndar í töffaraskap á næstu áratugum. Þessi rosalegi töffari var um sextugt, með sítt grátt hár í flottum jakkafötum og að sjálfsögðu ekkert bindi... minnti Kúrbítinn á Sam Elliot úr þeirri geysigóðu kvikmynd Roadhouse. Punkturinn yfir i-ið vað að hann ók um á Porsche 911, árgerð 1960, og að sjálfsögðu með blæjuna niðri... svakalegur bíll og svakalegur töffari.

Uppgötvaði frábæra pizzeriu...
Kúrbítnum finnst alltaf gaman að uppgötva nýja og skemmtilega veitingastaði í nágrenni við heimili sitt. Í gærkvöldi fann Kúrbíturinn stað sem á eftir að verða einn af hans uppáhalds, þetta er pizzeria sem á að vera einn af þrjátíu bestu í Mílanóborg og er aðeins í 500 metra fjarlægð. Kúrbíturinn fékk sér pizzu með spínati, eggi og grana padano. Hún smakkaðist frábærlega og er nokkuð öruggt að Kúrbíturinn muni fara þangað á nýjan leik.

Engin ummæli: