Ímynd þessa stórkostlega félags...
Eins og Elliði hefur sagt áður á stórveldið Fylkir í ákveðinni tilvistarkreppu, hvort það er ungmennafélag eða stórklúbbur á erlendan mælikvarða. Elliði vill meina að Fylkir eigi ekki að vera markaðssetja sig sem lítinn saklausan KFUM klúbb heldur sem stóran klúbb á íslenskan mælikvarða, sem rekinn er með það að markmiði að ná sem bestum árangri á vellinum og að ná rekstrarniðurstöðu fyrir ofan núllið.
Elliði vill meina að Fylkir geti gert mun betur í allri markaðssetningu á félaginu og fréttaflutningi félagsins á opinberum vettvangi. Það er margt gott gert hjá Fylki á þessu sviði, en það gerir hver í sínu horni og á endanum er þetta sundurleitur hrærigrautur. Það vantar alla heildarmynd, ákveðna sýn á það hvernig félagið vill koma hverfisbúum og landsmönnum öllum fyrir sjónir. Elliði ætlar hér á eftir að benda á nokkur atriði sem betur mættu fara og að sjálfsögðu að koma fram með ákveðnar lausnir.
Fyrsta atriði sem Elliði vill minnast á er að Fylkir þarf að sjálfsögðu að hafa búninga meistaraflokks mjög aðgreinanlega frá búningum annarra flokka félagsins...kannski er því þannig farið í dag. Það eykur löngun ungra leikmanna og annarra stuðningsmanna til þess að eignast hinn eina sanna búning félagsins. Ef rétt er á spilum haldið gæti félagið selt 600-800 búninga á ári, án þess að Elliði hafi nokkra hugmynd um stærð þessa markaðs, en auðvelt væri fyrir Elliða að reikna það út ef hann hefði réttar upplýsingar í höndunum. Að sjálfsögðu á Fylkir síðan að bjóða upp á þá þjónustu að merkja búningana með nöfnum leikmanna eða nafni kaupandans.
Fylkir þarf að bjóða upp á gott úrval af vörum tengdum félaginu og láta vörurnar mynda ákveðna heildarmynd en ekki hafa þær sundurleitar og allar úr sinni hvorri áttinni. Fylkismenn eiga annaðhvort að hanna þessar vörur sjálfir og láta sauma þær fyrir sig eða komast í samband við erlendan aðila sem býður upp á flotta vöru í hinum eina sanna appelsínugula lit okkar. Dæmi um vörur sem félagið þarf að bjóða upp á eru búningar, regngallar, húfur, treflar, vettlingar, svitabönd, fánar, trommur og að sjálfsögðu appelsínugul og svört reykblys. Elliði er meðvitaður um það að flestar þessara vara hafa verið framleiddar á vegum félagsins en oft hefur hver og einn verið að gera þetta í sínu horni og heildarmynd þessara vara verið sundurleit.
Fylkismenn eiga að sjálfsögðu að selja vörur merktar félaginu á hærra verði en ómerktar með sömu gæðum og seldar eru á almennum markaði. Fylkir er ekki aðeins að selja venjulegar vörur heldur er Fylkir að selja merki félagsins... selja aðgang að veröld besta knattspyrnufélags á Íslandi. Munurinn á verði venjulegrar húfu og Fylkishúfu felst í þeirri ímynd sem Fylkir hefur byggt upp á undanförnum árum og áratugum.
Fylkir þarf að byggja upp ákveðinn heim í kringum félagið... láta fólk virkilega langa til þess að kaupa sér aðgang að okkar stórkostlega félagi. Það þarf að láta allar vörur og alla þjónustu mynda ákveðna heild og styðja við hvert annað. Þegar Elliði talar um þjónustu á hann við allt fólkið sem vinnur á heimaleikjum félagsins, starfsfólk Fylkishallarinnar og að sjálfsögðu leikmenn, þjálfara og aðra sem koma nærri starfsemi félagsins. Félagið þarf líka að leggja áherslu á allt umhverfi félagsins, heimavöll, vörur þess, auglýsingar og útgáfuefni.
Þegar Elliði talar um endurbætur á heimavelli félagsins er hann ekki að tala um að það þurfi að fara út í umfangsmiklar steinsteypuframkvæmdir, stúkubygginar, stigatöflur og aðrar fjárfrekar framkvæmdir. Þetta er frekar spurning um frágang á þeim mannvirkjum sem við höfum til staðar í dag, það eru oft litlu atriðin sem gera gæfumunin um hvort hlutir eru til fyrirmyndir eða ekki. Að Elliða mati hefur alltaf vantað upp á frágang á auglýsingaskiltum í kringum völlinn til að heildarásýnd vallarins verði glæsilegri. Það þarf að ganga betur frá auglýsingaskiltunum á hornum vallarins, hafa öll auglýsingaskiltin í sömu hæð og með svipaða áferð.
Elliði telur að auglýsingagildi þess að auglýsa með auglýsingaskiltum á knattspyrnuvöllum sé ekki það besta á markaðnum og fyrirtæki geri það nær eingöngu í góðgerðarskyni. En það er hægt að gera þennan auglýsingamiðil eftirsóknarverðari fyrir fyrirtæki með því að gera útlit vallarins betra, hlaða ekki of miklu magni á völlinn og hafa auglýsingaspjöldin vel útlítandi. Stundum hefur Elliði fengið það á tilfinninguna að hann sé staddur í auglýsingabæklingi frá Hagkaupum þegar hann hefur verið að virða fyrir sér heimavöll félagsins. Elliði verður samt að hrósa forsvarsmönnum félagsins fyrir þá aukningu á auglýsingaskiltum sem orðið hefur á undanförnum misserum...en stundum er þetta spurning um gæði en ekki magn.
Fylkismenn þurfa að ákveða sinn eigin appelsínugula lit, sinn sérstaka tón, sem síðan verður notaður alls staðar á vegum félagsins, hvort sem það er á útgáfuefni, búningum, heimasíðu eða söluvörum...þetta yrði appelsínuguli liturinn okkar.
Þrátt fyrir allar þessar aðfinnslur hér að ofan er Elliði meðvitaður um allt það góða starf sem unnið er innan vébanda Fylkis og ber mikla virðingu fyrir öllu þvi fólki sem vinnur þetta góða starf í þágu félagsins. Ef til vill er það ásetningur forsvarsmanna félagsins að gera Fylki að fjölskylduvænlegasta félagi í heiminum...en er það vænlegasta leiðin?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli