Útsýni dagsins í dag.....
Kúrbíturinn vaknaði í morgun, hress í bragði og hlakkar til dagsins í dag. Þetta á eftir að annasamur dagur, nóg að gera en þrátt fyrir það örugglega ansi skemmtilegur. Kúrbíturinn mun fara í skólann, vera í verkefnavinnu fram á kvöld og svo munu hjónin frá Genóa heiðra Kúrbítshjónin með nærveru sinni þegar líða tekur á kvöldið.
Útsýnið úr íbúð Kúrbítsins er oft fjölbreytt og skemmtilegt á föstudagsmorgnum, engin undantekning var á því þennan morguninn. Hér á eftir kemur topp 10 listi yfir skemmtilega hluti sem Kúrbíturinn sá út um gluggann sinn þennan morguninn:
1. Kúrbíturinn kíkti upp til himins, sólin blasti við honum og hitinn yljaði honum á sinn einstaka hátt.
2. Út um gluggann sá Kúrbíturinn útimarkaðinn sem alltaf er á föstudögum í götunni við hliðina. Þar koma farandkaupmenn borgarinnar saman og bjóða upp á ávextina sína, kjötið, ostana og aðrar vörur sem þeir hafa á boðstólnum fyrir íbúa Mílanóborgar. Mikið af fólki, líf í kringum viðskiptin og margt skemmtilegt að sjá.
3. Kaupmaðurinn í litlu ávaxtabúðinni á móti var í óða önn að fylla á búðina sína og gera allt klárt fyrir daginn. Allt í gangi og mikið af fólki að spjalla við kaupmanninn um daginn og veginn.
4. Kaupmaðurinn í litlu kjötbúðinni stóð fyrir utan búðina sína, lítið að gera og notaði hann því tækifærið og talaði við gesti og gangandi.
5. Mikil umferð á stóru götunni, allir að drífa sig og vilja helst keyra yfir bílinn við framan. Allt í einu byrja allir að flauta, setja hausinn út um gluggann og öskra á manninn við hliðina...allt í einu fellur allt í dúnalogn á nýjan leik og umferðin hélt áfram.
6. Afar og ömmur á leið með barnabörnin sín í skólann. Kúrbítnum finnst alltaf gaman að sjá kynslóðir ganga saman, létt í lundu og brosandi út að eyrum.
7. Gamall maður að leggja í stæði, fjórir að leiðbeina honum en verknaðurinn gekk hægt og hátt. Leiðbeinendurnir kalla hátt, sitthvorar upplýsingarnar og gamli maðurinn vissi ekki í hvora áttina hann átti að beygja eða hvort hann eigi að fara aftur á bak eða áfram.
8. Fyrir utan kaffibarinn á horninu stóðu átta manns í hóp, rifust um fótbolta og var umræðuefnið stórleikur næstu umferðar... Inter Milan - Juventus. Ekki komst hópurinn að niðurstöðu um hvernig leikurinn muni fara og verður Kúrbíturinn að bíða fram á sunnudag til að komast að því.
9. Fjölskyldurnar átta sem Kúrbíturinn sér inn um eldhúsið hjá voru í óða önn að koma sér af stað, örugglega bæði í vinnu og skóla. Morgunmaturinn hjá fjölskyldunum átta var fjölbreyttur, allt frá morgunkorni til pasta með öllu tilheyrandi.
10. Konan með flottu svalirnar á móti kemur út, snyrtir rósirnar sínar og segir þeim hversu vænt henni þykir um þær. Kúrbítnum finnst gaman að sjá fólk leggja sál sína í eitthvað sem þeim finnst vænt um.
Þetta var útsýni dagsins að þessu sinni og Kúrbítnum finnst alltaf gaman að kíkja út um gluggann sinn á Via Passeroni 2....það má sko með sanni segja að íbúð Kúrbítshjónanna sé “a little room with a great view”......
Engin ummæli:
Skrifa ummæli