fimmtudagur, 22. júlí 2004

Þetta er allt spurning um að hlusta…
Það eru þrjár meginleiðir til þess að öðlast aukna þekkingu...með því að hlusta, lesa eða upplifa. Við samræður er mikilvægt að hlusta til þess að maður fái aukna þekkingu og meiri upplýsingar frá viðkomandi. Þegar maður talar eingöngu sjálfur allan liðlangan daginn er maður eingöngu að að tala um eitthvað sem maður vissi fyrir, engin aukin fróðleikur eða vitneskja. Það hlýtur því að vera mikilvægt að spyrja það fólk sem maður umgengst opinna spurninga um þau viðfangsefni sem það veit meira um en maður sjálfur. Þannig er maður alltaf að fá nýjar upplýsingar og nýja þekkingu um eitthvað sem maður vissi ekki fyrir. Þannig er hægt að segja að maður sé nokkuð sjálfselskur og eigingjarn, að vilja tala minna og hlusta meira til þess að öðlast meiri þekkingu og vitneskju. En í rauninni finnst öllum gaman að segja frá eigin reynslu og miðla eigin þekkingu. Þannig að allir eru ánægðir, viðmælandinn fékk að miðla reynslu sinni og þekkingu á meðan maður sjálfur öðlaðist meiri þekkingu og innsýn hinn reynsluheim hans. Að sjálfsögðu geta ekki allir farið þessa leið, þá myndi enginn segja neitt og lífið yrði mjög litlaust og leiðinlegt.

En stundum er það svo að fólk þykist vera að hlusta en er bara að bíða eftir að fá að komast að til að segja frá einhverjum fróðleik sem það býr sjálft yfir. Oftast nær skín það í gegn að viðmælandinn er ekki að hlusta og þá líður þeim sem er að segja frá ekki vel, finnst eins og enginn hafi áhuga á því sem hann hefur fram að færa. Það er því mikill munur á því að hlusta og hlusta. Þegar maður er í alvörunni að hlusta þá er maður athugull, einbeittur og spyr viðmælandann spurninga ef maður skilur ekki alveg hvað hann er að segja. Maður getur aftur á móti verið að hlusta án þess að meðtaka neitt sem viðmælandinn var að segja við mann og eftir nokkrar mínútur getur maður ómögulega munað hvert umræðuefnið var. Þetta er sem sagt spurning um að spyrja opinna spurninga um eitthvað sem viðmælandinn þekkir mjög vel og maður vill fá að vita, hlusta af athygli og einbeitingu og spyrja síðan viðmælandann um allt það sem maður skildi ekki, fannst eitthvað loðið eða langar að vita eitthvað meira um. Tala minna og hlusta meira...kannski er best fyrir alla aðila eða hvað?

Engin ummæli: