fimmtudagur, 1. júlí 2004

Skapa peningar hamingjuna!!!
Í hinum vestræna heim hefur orðið bylting á undanförnum áratugum, lífsgæði okkar hafa aukist, híbýlin okkar orðið glæsilegri og höfum við nánast allt til alls...sem við fyrstu sýn hlýtur að vera mjög gott. En á sama tíma hefur bæði líkamlegt og andlegt ástand okkar versnað, til dæmis hefur ofita, þunglyndi og sykursýki aukist til muna. Þrátt fyrir öll þessi lífsgæði sem við búum við í dag erum við ekkert hamingjusamari en við vorum áður en allt þetta kom til sögunnar. En ef það er staðreynd að við erum öll kominn í þennan heim með það að markmiði að verða hamingjusöm og það sé okkar æðsta markmið...þá erum við á rangri braut.

Mín skoðun er sú að peningar geta aldrei skapað hamingju eða gert einhverja hamingjusama einir og sér...en þeir geta auðveldað fólki að ná því markmiði að öðlast hamingjuna. En peningar geta einnig gert leiðina að hamingjunni mun erfiðari en ella...þetta fer allt eftir því hvernig hver og einn spilar úr þeim spilum sem hann hefur á hendi hverju sinni. Þegar einhver á fullt af peningum getur hann varið mun meiri tíma með fjölskyldu sinni og vinum en hann ella gæti gert, hann er laus við allar áhyggjur vegna peninga og getur eytt tíma sínum og orku í skemmtilegri viðfangsefni. En aftur á móti eru þeir sem eiga fullt af peningum búnir í flestum tilfellum að vinna hörðum höndum fyrir þeim og eiga þá að sjálfsögðu skilið. Þegar maður hefur þurft að vinna mjög mikið fyrir þessum peningum þá hlýtur maður að hafa haft minni tíma í gegnum tíðina fyrir þá sem skapa manni hina raunverulegu hamingju, þ.e. fjölskyldan og vinirnir. Þannig er alls ekki víst að maður sé hamingjusamur þrátt fyrir að eiga fullt af peningum.

Þegar maður hugsar um lífhlaup sitt á dánarstundu þá getur varla verið að maður hugsi um allar þær stundir sem maður eyddi í vinnunni og maður hafi nú viljað getað verið þar aðeins lengur á hverjum degi. Ekki er líklegt að maður hugsi um hvað maður sé svekktur að hafa aldrei eignast túrbó týpuna af nýja Hyundai Coupé sportbílnum eða flotta "50 widescreen sjónvarpstækið. Líklegra er að þegar maður lítur yfir lífshlaup sitt á dánarstundu að maður hugsi um allar þær hamingjusömu stundir sem maður hefur átt með fjölskyldu sinni og vinum.

Þannig að þegar öllu er á botninn hvolft þá geta peningar auðveldað fólki í leit sinni að hamingjunni en geta ekki gert neinn hamingjusaman einir og sér.

Engin ummæli: