miðvikudagur, 15. september 2004

Indlandsævintýrið...fjórði dagur
Kúrbíturinn vaknaði svo sannarlega ekki við fyrsta hanagal þennan morguninn...það var sko sofið áfram. Þegar Kúríbíturinn drattaðist loks á fætur hélt hann af stað í verslunarferð, til þess að kaupa sér stuttbuxur og bakpoka. Eftir mikla leit fann Kúrbíturinn sér stuttbuxur í sinni stærð og bakpoka sem svo svo sannarlega ekki í sinni stærð. Hann var tekinn í rassgatið sem svo oft áður og borgaði 550 krónur fyrir herlegheitin...svona er nú verðlagið í Chennai.

Þetta var stórkostlegur dagur því eftir að kvinna hafði lokið vinnudeginum var haldið af stað í átta daga ferðalag um S-Indland. Það beið Kúrbítshjónanna 16 tíma lestarferðalag til Kanyukamari, syðsta odda Indlands. Þrátt fyrir að þessi ferð tæki 16 tíma þá var vegalengdin ekki nema 700 kílómetrar...þó ótrúlega mætti halda þá hét lestin Chennai Express.

Lestarkerfið á Indlandi er á margan hátt mjög gott, lestirnar ávallt á tíma og hægt að komast hvert á land sem er með lítilli fyrirhöfn. Kvinna Kúrbítsins hafði þó heyrt að starf lestarstjórans væri illa borgað, þeir væru upp til hópa þunglyndir og drykkju ótæpilega í vinnunni. Að auki væru margar af brúm landsins í slæmu ástandi og væru eiginlega nokkurs konar tikkandi tímasprengjur...Kúrbítshjónin létu þó svoleiðis smáatriði ekki hafa áhrif á sig.

Það fór vel um þau hjónin í lestinni, borðuðu vel og sváfu svo lengi á eftir. Þrátt fyrir að þau hjónin náðu að sofa í óheyrilega marga klukkatíma í lestinni þá leið þeim eins og þau hefðu verið vakandi allan tímann. Við komuna til Kanyukamari fundu þau sér hótel, drukku nokkra bjóra og létu sér líða vel.

Engin ummæli: