sunnudagur, 26. september 2004

Indlandsævintýrið...sjöundi dagur
Þá var komið að því enn á ný að færa sig um stað, halda ferðalaginu áfram og upplifa nýjan bæ. Staðurinn sem varð fyrir valinu að þessu sinni heitir Kovalam. Kovalam er gamall hippabær, svokallaður ferðamannabær á indverskan mælikvarða og er nokkuð þéttsetinn af sölumönnum. Á Indlandi eru sölumenn allstaðar og allt um kring, reyna selja ferðamönnum ýmislegan varning en sjaldan er sérstaklega talað um mikið áreiti þeirra í einhverjum ákveðnum bæ í alþjóðlegum ferðahandbókum...það var að vísu gert um Kovalam. Kúrbítshjónin höfðu því ekki mjög miklar væntingar um þennan stað og kom hann því þeim skemmtilega á óvart...eftirminnilegur staður í alla staði. áreiti sölufólksins fór ekki í taugarnar á þeim hjónum og gaf það aftur á móti bænum skemmtilegt yfirbragð. Bærinn er lítill, stendur í fallegri vík og ströndin svo sannarlega stórkostleg.

Þau fengu sér morgunmat á stað sem heitir því frumlega nafni...La Pizzeria. Þar fengu þau sér cappucino eftir langa bið og smakkaðist hann bara nokkuð vel. Þessi cappucino var samt svolítið sérstakur því froðan náði um það bil 16 sentímetra upp fyrir barma bollans, hrundi síðan niður á örskömmum tíma og varð nánast að engu...svona skemmtileg indversk útgáfa.

Að loknum staðgóðum morgunmat var farið til klæðskera sem rak litla búð í næsta húsi við La Pizzeria. Kúrbítskvinnan lét sérsauma á sig skyrtu og buxur sem Kúrbítnum fannst fara henni svakalega vel...hún var svona alveg ekta indversk prinsessa.

Nú var svo sannarlega kominn tími á ströndina, Kúrbítinn iðaði í skinninu að fá að henda sér í saltan sjóinn og busla eins og lítill strákur...það getur stundum verið svo stutt í litla strákinn í Kúrbítnum. Ströndin var stórkostleg, gaman að synda í sjónum og liggja þess á milli og láta sólina steikja sig. Kúrbítshjónin höfðu notið þessa dags til hins ýtrasta og var hann samt ekki næstum því búinn. Kúrbíturinn var virkilega að njóta þessa ferðalags, stórkostlegt land og ennþá stórkostlegri ferðafélagi.

Um kvöldið fóru Kúrbítshjónin út að borða á nokkuð undarlegum stað. Þar var boðið upp á ítalskt pestó með indverskum áhrifum...það var mun meira bit í því en því ítalska sem Kúrbíturinn er vanur.Setið var út með stórkostlegt útsýni yfir ströndina og út á hafið. Kúrbítshjónunum fannst skemmtilegt að horfa út á hafið og horfa á sjómennina reyna að koma gulli hafsins á land...að þessu sinni með rauðvín í glasi á stórkostlegum stað. Kúrbítshjónin borðuðu matinn sinn með bestu lyst, kláruðu rauðvínsflöskuna og voru byrjuð að finna áhrif bakkusar læðast aftan að þeim. Þau létu ekki staða numið þar, drukku nokkra bjóra til viðbótar og keyptu sér síðan nokkra til þess að taka með sér. Með bjóra í poka var haldið niður á strönd þar sem þau héldu áfram að drekka og létu sér líða vel. Kúrbíturinn skemmti sér stórkostlega þetta kvöld og á það eftir að lifa sterkt í minningunni um ókomin ár...svona var nú hinn sjöundi dagur

Engin ummæli: