Þá var komið að því enn á ný að færa sig um stað, halda ferðalaginu áfram og upplifa nýjan bæ. Staðurinn sem varð fyrir valinu að þessu sinni heitir Kovalam.

Þau fengu sér morgunmat á stað sem heitir því frumlega nafni...La Pizzeria. Þar fengu þau sér cappucino eftir langa bið og smakkaðist hann bara nokkuð vel. Þessi cappucino var samt svolítið sérstakur því froðan náði um það bil 16 sentímetra upp fyrir barma bollans, hrundi síðan niður á örskömmum tíma og varð nánast að engu...svona skemmtileg indversk útgáfa.
Að loknum staðgóðum morgunmat var farið til klæðskera sem rak litla búð í næsta húsi við La Pizzeria. Kúrbítskvinnan lét sérsauma á sig skyrtu og buxur sem Kúrbítnum fannst fara henni svakalega vel...hún var svona alveg ekta indversk prinsessa.
Nú var svo sannarlega kominn tími á ströndina, Kúrbítinn iðaði í skinninu að fá að henda sér í saltan sjóinn og busla eins og lítill strákur...það getur stundum verið svo stutt í litla strákinn í Kúrbítnum. Ströndin var stórkostleg, gaman að synda í sjónum og liggja þess á milli og láta sólina steikja sig. Kúrbítshjónin höfðu notið þessa dags til hins ýtrasta og var hann samt ekki næstum því búinn. Kúrbíturinn var virkilega að njóta þessa ferðalags, stórkostlegt land og ennþá stórkostlegri ferðafélagi.
Um kvöldið fóru Kúrbítshjónin út að borða á nokkuð undarlegum stað. Þar var boðið upp á ítalskt pestó með indverskum áhrifum...það var mun meira bit í því en því ítalska sem Kúrbíturinn er vanur.

Engin ummæli:
Skrifa ummæli