Indlandsævintýrið...áttundi dagur
Þennan morgun lét nokkur þynnka á sér kræla, einhver var að berja á trommur í höfðinu á Kúrbítshjónunum og líðanin eftir því. Kúrbíturinn telur að besta meðalið við þynnku sé að þramma niður á strönd og liggja þar þangað til þynnkan hefur gufað upp í sterkri sólinni.
Kúrbítshjónin svömluðu í sjónum og lágu á ströndinni þennan dag. Þau nutu þess í botn á þessum yndislega stað sem verður svo sannarlega lengi í minnum hafður. Kúrbíturinn stökk inn í hverja einustu öldu sem skall að landi en á meðan lág Kúrbítskvinnan á ströndinni og klappaði í hvert sinn sem Kúrbíturinn gerði eitthvað flott.
Um klukkan sex pökkuðu Kúrbítshjónin saman föggum sínum, skildu við hótelið og héldu ferðalaginu áfram. Næsti áfangastaður var Varkala sem er lítill bær sem stendur við fallega strönd. Við komuna til Varkala byrjaði að rigna og það átti eftir að vera vætusamt næstu átta dagana...en enginn er verri þó hann vökni.
Þetta var eini viðkomustaður Kúrbítshjónanna þar sem þau dvöldu í tvær nætur...á öllum hinum stöðunum var einungis dvalið í eina nótt. Á þessum stað dvöldu Kúrbítshjónin í litlum bambuskofa við ströndina og var það stórkostleg upplifun...að sofa í tjaldi á stjörnubjarti íslenskri sumarnótt kemur næst þessari tilfinningu.
Kúrbítshjónin kíktu á ferðaskrifstofu þennan dag og skipulögðu næstu skref ferðalagsins. Þau keyptu sér lestarmiða frá bæ sem heitir Kochin aftur tilbaka til Chennai...einungis 12 tíma ferðalag sem þykir nú bara nokkuð gott. Að auki keyptu þau sér 24 klukkustunda bátsferðalag um vötn sem voru þarna í nágrenninu...þar myndu þau hjónin vera ein á húsbát með fullu fæði og þrír starfsmenn sem myndu sjá um að þau hefðu allt til alls.
Um kvöldið nutu Kúrbítshjónin smábæjarins Varkala, borðuðu vel og drukkku nokkra bjóra. Kúrbítnum fannst alltaf skemmtilegt að upplifa hvað Indverjar eru í miklum feluleik með áfengi. Á þessum veitingastað sem hjónin fóru á þetta kvöld fékk Kúrbíturinn bjórinn sinn vafinn í dagblöð, þjónninn hellti bjórnum í kaffikönnu og setti síðan restina af flöskunni undir borðið...sem sagt ekkert mátti sjást.
Kúrbítshjónin fóru tiltölulega snemma upp í stórkostlega bambuskofann, þurftu á svefninum að halda því þau þurftu að leggja af stað klukkan 6 morguninn eftir.
Svona var nú hinn áttundi dagur...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli