Kúrbíturinn þarf á hjálp að halda
Það hefur oft loðað við Kúrbítinnn að vilja fresta litlum hlutum sem hann á einhvern hátt getur komist af með...framkvæmdarleysið að drepa hann. Þegar Kúrbítshjónin fluttu inn í íbúð sína í Mílanó vantaði peru inn á baðherbergið, lítið mál að skipta en allt kom fyrir ekki...Kúrbítshjónin fóru með skrifborðslampann inn á baðhergið í hvert sinn sem þau þurftu að gera þarfir sínar. Það var ekki fyrr en hinn framkvæmdarglaði Sæþór kom í heimsókn, búinn að fá nóg af framkvæmdarleysi Kúbítsins og kippti málunum í lag. Þegar þetta gerðist voru Kúrítshjónin búin að lifa í ást og hamingju í myrkvuðu baðherberginu í tæpa þrjá mánuði. Það var samt einhvern veginn þægilegt fá peruna inn á myrkvaða baðherbergið, þurfa ekki að færa skrifborðslampann í hvert sinn og þau Kúrbítshjónin sá loksins ljósið...þökk sé snillingnum Sæþóri.
Enn á ný er Kúrbíturinn í vanda staddur, veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga og er gjörsamlega í öngum sínum...peran á baðherberginu er búin að syngja sitt síðasta. Kúrbíturinn hefur ekki marga möguleika í stöðunni, Sæþór fluttur til Íslands og Kúrbíturinn ekki ennþá fundið neina peruísetningarheimsendingarþjónustu í Mílanó. Kúrbíturinn hefur miklar áhyggjur af því að þurfa að fara alla leið út í matvörumarkaðinn, kaupa nýja peru og setja hana í sjálfur.
Kúrbíturinn hefur samt ákveðið að berja í sig framkvmdargleði, kaupa peru í matvörumarkaðnum og setja hana í sjálfur...hvenær er samt allt annað mál.
Indlandsævintýrið...sjötti dagur
Kúrbíturinn vaknaði með verk í baki, hálsinn stífan og óhreinar tær. Ferðaþreytan lét enn á sér kræla en það lagast allt með tíð og tíma. Þennan daginn stefndu Kúrbítshjónin til bæjar sem heitir Trivandrum, áttu fyrir höndum 90 kílómetra leið sem tók rúmar tvær og hálfa klukkustund í fornaldarlegri hópferðarbifreið í indverskum stíl. Þröngt var um Kúrbítinn, lappirnar kramdar upp í loftinu og hnén upp í andlitinu á manninum fyrir framan.
Við komuna til Trivandrum fundu Kúrbítshjónin sér lítið hótel á viðráðanlegu verði...tæpar þrjú hundruð íslenskar krónur. Það er einhvern veginn allt miklu ódýrara á Indlandi en Ítalíu.
Það er ekki gott að vera háður rauðvíni á Indlandi, sjaldnast hægt að nálgast það og þegar það finnst þá er verðið eins og það þekkist á fósturjörðinni. Líklegra er að finna bjórinn en samt ekki víða. Kúrbíturinn hefur fundið sér bjór og bjór...indverski bjórinn smakkast bara þónokkuð vel.
Kúrbítshjónin fundu sér mjög flottan morgunverðarstað sem staðsettur var í háum turni miðsvæðis í Trivandrum og heitir Indian Coffe House. Gengið var upp halla upp turninn, hring eftir hring og á hægri hönd voru endalausir básar. Skemmtilegt var að sjá þjónana þjóta upp og niður turninn sem diskana hlaðna indverskum kræsingum...Kúrbítnum langar ekki að vita hvað þeir gangi marga kílómetra á hverri vakt. Kúrbítshjónin fengu sér indverskan morgunmat sem rann ljúflega niður.
Kúrbíturinn hafði ekki ennþá fengið í magann, ekki eitt einasta moskítóbit og var svo sannarlega við hestaheilsu enn sem komið er...sjö níu þrettán.
Um kvöldið gengu Kúrbítshjónin um götur þessa sjarmerandi bæjar, skoðuðu götulífið sem var stórkostlegt. Lyktirnar voru óteljandi, fólkið kátt og markaðirnir í fullum gangi. Svona götulíf höfðu Kúrbítshjónin ekki upplifað á Indlandi fyrr, nutu þess í botn því fjörugt mannlíf er eitthvað sem gaman er að upplifa...ávallt breytilegt frá einum stað til annars.
Síðar um kvöldið reyndu þau hjónin að finna hótel sem myndi vera svo vænt að selja þeim flösku af rauðvíni en án árangurs. Þeim hjónum var sagt að á Indlandi væri bannað að selja áfengi fyrsta hvers mánaðar...svo skringilegt sem það nú er. Kúrbítshjónin gengu því heim á leið eftir stórskemmtilegan dag...svona var nú þessi sjötti dagur.
2 ummæli:
Klúður hjá Sæþóri að setja ekki sparperu í sem myndi duga fram á næsta leigjanda íbúðarinnar svo þú þyrftir ekki að vera að standa í svona peruinnkauparstússi ;) Annars alltaf vert að athuga hvort hann sé með heimsendingarþjónustu frá Íslandi??
Koss til þín kæri sonur...........
Kjartan.
þú ættir að flytja hingað til Nýja Sjálands. Hér nægir að hringja í leigumiðlunina og þeir senda mann til að skifta um perur og hvað annað sem endar lífdaga sína hérna í húsinu á meðan veru okkar stendur.
Kveðjur frá NZ
Addi GINFAN
Skrifa ummæli