Merking sumra hluta einfaldlega breytist...
Kúrbíturinn hefur verið kúrbítur einsamall síðustu mánuði ef frá eru skildar þrjár stórkostlegar vikur á Indlandi. Kúrbíturinn hefur uppgötvað að merking og tilgangur flestra daglegra hluta hefur breyst og stundum horfið. Kúrbítskvinnan breytir venjulegum hlutum í svo sérstaka upplifun að erfitt er að lýsa því með orðum. Hér fyrir neðan er eitt dæmi um hvernig kvinna Kúrbítsins hefur gert venjulegan atburð að stórkostlegri venju sem Kúrbíturinn saknar mjög mikið.
Kúrbítnum finnst kaffi vera stórkostlegur drykkur, drekkur nokkuð mikið af honum og dáir hinn fullkomna espressó. Ástæður þess að honum líkar svona vel við þennan drykk er að honum finnst hann vera stórkostlegur á bragðið og hann gefur honum ákveðið kikk í erli dagsins. En það sem gefur fullkomnum espressó virkilegan tilgang er félagsskapurinn á meðan hann er drukkinn. Kúrbítshjónin hafa lengi haft þann sið að byrja daginn á góðum espresso, tala um lífið og tilveruna og er þetta stórkostleg byrjun á góðum degi. Í einveru Kúrbítsins hefur þetta breyst því þessa dagana hitar hann fyrsta espressó dagsins á meðan hann burstar í sér tennurnar, sturtar honum svo í sig og drífur sig af stað í verkefni dagsins. Nú hefur fyrsti espressó dagsins eingöngu þann tilgang að vekja Kúrbítinn og koma honum í gegnum daginn á sem skammlausastan hátt. Kúrbíturinn hlakkar til að sameinast kvinnu sinni í desember, gæða sér á hinum fullkomna espressó og njóta félagsskaparins til hins ýtrasta...það getur nefnilega svo margt skemmtilegt gerst yfir góðum espressó.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli