mánudagur, 22. nóvember 2004

Um hrósið...
Við vitum öll hvernig okkur líður þegar við fáum hrós og hvernig okkur líður þegar einhver gagnrýnir okkur á neikvæðan hátt, á þessu tvennu er mikill munur. Í þessu þjóðfélagi sem við búum í erum við endalaust í samskiptum við annað fólk og það er árangur þessara samskipta sem endurspeglar hvernig okkur líður. Það hlýtur að sjálfsögðu að vera markmið okkar allra að líða sem best og einnig að öllum þeim sem við eigum samskipti við líði sem allra best.Þegar við fáum hrósið þá verðum við ánægð, sátt við sjálf okkur og full af orku til þess að takast á við það sem er framundan. Sá sem gefur hrósið fær til baka ánægju og gleði frá þeim sem fékk hrósið. Það getur því ekki verið annað en jákvætt að við séum endalaust að hrósa hvort öðru, daginn út og daginn inn. En það þarf að vera innistæða fyrir hrósinu, sama hve lítil hún er. Ef sá sem fær hrósið veit að hann á það ekki skilið þá gerir það viðkomandi ekkert gott, við verðum sem sé að sleppa öllum látalætum og yfirborðsmennsku í þessum efnum. Það er bara þannig að þegar við hrósum öðru fólki þá líður okkur sjálfum betur, erum ánægðari og okkur líður einfaldlega vel. Maður er því einfaldlega eiginhagsmunaseggur þegar maður er að hrósa öðrum því maður fær það alltaf til baka, því meira sem maður hrósar....því meira fær maður til baka.

Aftur á móti hefur neikvæð gagnrýni þau áhrif að við verðum óánægð með okkur, ekki sátt og erum ekki næstum því eins orkumikil eins og við gætum verið. Hver er þá tilgangurinn með því að vera endalaust að gagnrýna annað fólk á neikvæðan hátt þegar það hefur einungis slæm áhrif. Það getur ekki verið að fólk sé vísvitandi að reyna brjóta aðra niður með gagnrýni sinni á annað fólk. Þetta hlýtur að vera þeirra leið til þess að bæta hegðun annars fólks og reyna að láta eitthvað í fari þeirra ekki endurtaka sig. Þetta er einfaldlega ekki rétta leiðin og það vita flestir. Látum það fólk sem stundar niðurrifsstarfsemi vita af því og látum það leggja þennan slæma sið niður.

Hrósum...allan liðlangan daginn.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kúrbíturinn veit að þú munt aldrei segja "ég veit´" á nýjan leik...þess í stað muntu roðna eins og lítil stelpa, segja takk og skokka síðan niður götuna sem hamingjusamasta stúlkan í öllum heiminum.