Kúrbíturinn óskar eftir húsnæði...
Nú er komið að því að Kúrbíturinn mun flytja niður í miðbæ Reykjavíkur. Afnotabifreið Kúrbítsins undanfarna mánuði er í eigu bróður hans, von er á stráknum til landsins og Kúrbíturinn missir þá bifreiðina. Lán í óláni. Kaupa bifreið eða flytja niður í bæ. Kúrbíturinn velur miðbæinn. Bíllaus í úthverfi, vonlaust.
Kúrbíturinn vill því biðja þegna Hins Kúrbíska Heimsveldis að hafa augun opin fyrir skálkaskjóli handa Kúrbítnum sínum. Kúrbíturinn er að tala um tímabilið frá byrjun júlí fram í lok september 2005. Allt opið og allt kemur til greina. Íbúð eða herbergi í íbúð, lítið eða stórt, leigjandi eða meðleigjandi.
Ef einhverjir af þegnum Hins Kúrbíska Heimsveldis hafa lausn fyrir Kúrbítinn sinn vill hann biðja viðkomandi að hafa samband við sig sem allra fyrst.
Kúrbíturinn er vel þrifinn, kassavanur og svitalykt í lágmarki.
Málfarshorn Kúrbítsins...
Coca Cola er svört sykurleðja, upprunin í Bandaríkjunum og hefur Kúrbítnum lengi haft óbeit á þessum drykk. Hér á landi er þessi drykkur kallaður kók og hefur þetta orð fest sig í sessi í íslenskri tungu. Aftur á móti eru ekki allir sammála hvernig þetta orð á að vera í fleirtölu. Á það að vera eins í eintölu og fleirtölu eins og tíðkast með tökuorð í mörgum tungumálum eða á það að vera eins og rammíslenska orðið bók.
Hvort á að segja: hér eru margar kók eða er réttara að segja: hér eru margar kækur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli