föstudagur, 31. mars 2006

Einhver staður...
Kúrbíturinn er oft gleyminn. Hvorki á orð eða eið. Aftur á móti er hann gleyminn á hluti sem þurfa að vera í farteskinu. Lyklar, sími, veski, klink, úr og skissubók eru hlutir sem oft gleymast. Stundum gleymist að hafa þá meðferðis en stundum hvar þeir eru niðurkomnir. Oftar það síðara en sjaldnar það fyrra.

Alltaf eru þeir á sínum stað, einhvers staðar. Það er þessi einhvers staður sem skiptir öllu máli. Hann er hér í dag en annars staðar á morgun. Síbreytilegur, slunginn og hreyfanlegur.

Gott væri ef þessi einhvers staður væri alltaf á sama stað...

Veltingur…
Getur verið að einhver sé með einkanúmerið H5N1 á bifreið sinni?

Gleðilega helgi...
Kúrbíturinn óskar aðdáendum sínum nær og fjær, til sjávar og til sveita, lágum sem háum, ungum jafnt sem gömlum, dökkhærðum sem ljóshærðum, slétthærðum og skollóttum jafnt sem krullhærðum, konum jafnt sem körlum, í lofti sem á láði, gagnkynhneigðum jafnt sem samkynhneigðum gleðilegrar helgar og vonar að allir hafi það sem allra best.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Augnsamband.