365 – 13 = 352
Þegar Kúrbíturinn var sáralítið grænmeti trúði hann svo sannarlega á jólasveininn. Langt fram eftir aldri sett’ann alltaf skóinn út í glugga. Alla dagana þrettán, hvert einasta ár. Ávallt var eitthvað í skónum, oftast gott en sjaldan vont.
Þegar árin liðu fór Kúrbíturinn að sjá í gegnum þetta. Það var ekki allt sem sýndist og honum grunaði eitthvað misjafnt. Kúrbíturinn stóð móður sína að verki. Hann grét hátt og hann grét snjallt. En Kúrbíturinn fyrirgaf móður sinni, settist niður með henni og þau komust að samkomulagi. Samkomulagið fólst í því að móðir hans myndi setja í skó Kúrbítsins þar til hann myndi ná sér í sína fyrstu alvöru kærustu.
Þannig liðu árin, eitt í einu. Svo fór að Kúrbíturinn fann sína fyrstu alvöru kærustu. Eftir mikið þras og skraf sættist fyrsta alvöru kærastan á það að gefa Kúrbítnum í skóinn þessa þrettán daga á ári. Síðan þá hafa fyrrverandi kærustur mestmegnis séð um að fylla skó Kúrbítsins, hvort sem þeim hefur líkað það betur eða verr.
Kúrbíturinn hefur verið grænmeti einsamalt síðustu misserin. Honum hefur líkað það vel í 352 daga á hverju einasta ári. En það eru þessir þrettán dagar sem eru svo sannarlega erfiðir fyrir Kúrbítinn.
Kúrbíturinn fær ekkert í skóinn...
Gleðilega helgi...
Kúrbíturinn óskar aðdáendum sínum nær og fjær, til sjávar og til sveita, lágum sem háum, ungum jafnt sem gömlum, dökkhærðum sem ljóshærðum, slétthærðum og skollóttum jafnt sem krullhærðum, konum jafnt sem körlum, í lofti sem á láði, gagnkynhneigðum jafnt sem samkynhneigðum gleðilegrar helgar og vonar að allir hafi það sem allra best.
1 ummæli:
Djefell er jeg ánægður með að þú hefur ekki gleymt að óska krullhærðum gleðilegrar helgar - síðan ég árétti þig hérna um árið
BJ
Skrifa ummæli