fimmtudagur, 27. desember 2007

Fátt fór hátt á árinu 2007 en sumt ekki eins lágt og annað...

Janúar
Kúrbíturinn gerði drastískar breytingar á sínu ytra útliti. Kúrbíturinn safnaði hormottu. Í kjölfarið komst hann að því að íslenskt þjóðfélag grasserar í fordómum í garð manna með yfirvaraskegg. Kúrbíturinn gafst ekki upp, þraukaði en svo sannarlega ekki lengi.

Febrúar
Kúrbíturinn fékk þær fregnir að merfolaldið sem hann fékk fyrir ári væri hestfolald eftir allt saman, merfolaldið Skrugga varð að hestfolaldinu Þey.

Mars
Það gerðist einhvern veginn ekkert merkilegt þennan bévítans mánuðinn.

Apríl
Kúrbíturinn lagði land undir fót, þann betri og eiginlega báða. Áfangastaðurinn var Tyrkland og tilgangurinn áhugaverður í einfaldleika sínum. Sól og hiti, bolti og hvíld.

Maí
Kúrbíturinn fjárfesti í rúmlega 80 fermetra íbúð við Eskihlíð í Reykjavík.

Júní
Kúrbíturinn leiddi merina sína undir Aðal frá Nýjabæ. Drátturinn dýr, greiddur fyrirfram og engar getnaðarvarnir leyfðar.

Kúrbíturinn kíkti til Írlands í þeim tilgangi að sparka í bolta í einhverri liðakeppni Evrópu.

Júlí
Kúrbíturinn fjárfesti í 24 ára þýskum eðalvagni. Kúrbíturinn er því stoltur eigandi tveggja ævafornra Mercedes Benz bifreiða.

Ágúst
Kúrbíturinn stofnaði fyrirtækið Upsilon sem mun á næstu vikum opna vefverslunina Birkiland á slóðinni birkiland.com og birkiland.is.

September
Kúrbíturinn varð Íslandsmeistari í knattspyrnu með stórveldinu að Hlíðarenda.

Október
Kúrbíturinn kíkti í skjól sitt í Mílanóborg, skemmti sér konunglega og kvaddi með söknuði. Allt á sitt upphaf, miðju og endi. Rauðvín, kræsingar og góður félagsskapur var allt sem þurfti til að gera ferðina stórkostlega.

Nóvember
Kúrbíturinn flúði í spánýtt skjól í nýrri borg. Upplifunin einstök og skemmtanagildið í hámarki. París var stórkostlegt skjól með gömlu þema. Rauðvín, kræsingar og stórkostlegur félagsskapur.

Endurkoma ferfætlingana á mölina var stórkostleg stund. Kúrbíturinn nýtur nú lífsins til hins ýtrasta í stórkostlegum félagsskap hesta og manna.

Það er nauðsynlegt að týna ekki barninu í sjálfum sér. Leikföng geta einfaldlega verið stórkostleg. Kúrbíturinn kíkti í leikfangaverslun í þeim tilgangi að fjárfesta í risastórri kappakstursbraut. Eftir mikla leit, vangaveltur og hugsanir var fjárfest í einni af þeim stóru.

Desember
Þann 27. þessa mánaðar varð Kúrbíturinn hvorki meira né minna en 32 ára gamalt grænmeti.

1 ummæli:

Ingvi sagði...

þetta flotttt bílabraut,,slef.