mánudagur, 28. janúar 2008

Uppskrift að góðu kvöldi...
Kvöldið á sér stað á ókunnum stað, í ókunnri borg, í ókunnu landi. Fólkið situr þétt, hlið við hlið. Allir í mikilli sátt og þónokkru samlyndi. Skenkjað í glösið, síðan aftur og enn á ný. Þegar ekki er á allt kosið er magnið oft tekið fram yfir gæðin. Of er betra en van í þessum efnum.

Framboðnar kræsingar streyma í stríðum straumum. Einn réttur í einu og allir fyrir rest. Einhvern veginn er fyrsti réttur notaður til þess að stríða bragðlaukunum. Á stórum bakka eru bornir á borð stórkostlegt úrval af ostum, skinkum og pylsum. Úrvalið magnað, lyktin unaðsleg og útsýnið stórbrotið. Lykilorð bakkans er salame piccante, prociutto crudo, mortadella, prociutto cotto, speck, bresaola, coppa, parmigiano reggiano, pecorino, stracchino, grana padano og gorgonzola.

Eftir heilbrigða bið er skyndilega og allt í einu bornar á borð óvæntar kræsingar. Í boði eru fáeinir risastórir ravioli fylltir með gorgonzola. Lítið á mann en minningin stórkostleg. Bragðlaukarnir að lokum orðnir skemmtilega pirraðir af allri þessari stríðni.

Enn á ný er skenkjað í glösið, drukkið í botn og fyllt á aftur. Yndisleg athöfn sem að lokum verður að góðum vana. Allt í einu fyllist stofan af unaðslegri angan. Í stórri skál er pastaréttur sem eldaður er eftir uppskrift sem haldið hefur verið leyndri innan fjölskyldunnar, mann fram af manni. Allir fá sér fjall, éta fjallið og fá sér annað. Svo koll af kolli. Einhvern veginn eru allir hættir að stríða bragðlaukunum, þeir fá allt sem þeir vilja og fíla sig í botn.

Eftir mikið át og enn meiri drykkju færist fjör í leikinn. Allir hafa hátt, tala mikið en hlusta lítið. Hellt í glösin aftur, drukkið meira. Allir eru saddir, góðir og glaðir. Eftir drykklanga stund eða mögulega tveggja kemur að réttinum sem kenndur er við eftir. Rjómakenndur ís með smátt söxuðum hnetum borinn fram með rjúkandi espresso. Espressobollanum er hellt yfir ísinn og verður að ómótstæðilegri espressosósu. Á einu andartaki myndast þögn, allir njóta. Saman en þó í sitthvoru lagi.

Það er eitthvað sem vantar, mögulega punktinn. Einn punktur, mögulega tveir. Rétt hanteraður espresso er punktur en Mirto di Sardegna er hinn raunverulegi punktur yfir þetta blessaða i.

Fram á rauða nótt er drukkið, skrafað og hlegið. Hellt í glösin, síðasta flaskan tæmd og drukkið í botn. Allt spurning um að éta mikið, drekka meira og njóta mest.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er manni boðið í svona ? ?

- BJ