mánudagur, 25. janúar 2010

Allt verður fullkomið...
Á björtum sumarkvöldum neitar sólin að setjast, hún felur sig kannski í örskamma stund, en birtist svo á nýjan leik og allt verður fullkomið. Það er yndislegt að taka hnakk sinn og hest við slíkar aðstæður og ríða út í kvöldsólinni. Íslenski gæðingurinn tengir mann einhvern veginn við svo ótal margt af því sem gerir Ísland að stórkostlegum stað, sérstöðu landsins í allri sinni dýrð. Í mínum huga eru það mikil forréttindi að eiga föður sem hefur átt hesta í meira en hálfa öld og þekkir að auki sögu okkar ástkæra lands frá upphafi til enda. Allt einhvern veginn í blóðinu, kynslóð eftir kynslóð.

Tilhugsunin um að ferðast á hestum í góðum félagsskap í glitrandi kvöldsólinni um íslenska náttúru er á allan hátt yndisleg. Í föruneyti föður míns fær maður að auki sögu lands og þjóðar beint í æð. Í þessum ferðum segir hann manni sögur af höfðingjum, konungum, biskupum, ribböldum, prestum, þrælum, skáldum, húsfreyjum og hjúafólki. Segir manni sögur af deilum, mannvígum, vígaferlum, drekkingum, bardögum, hestaötum og hefndum.

Sögurnar eru stórkostlegar og eiga það sammerkt, þær gerðust í grenndinni.

Engin ummæli: